Book of Common Prayer
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
3 Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.
2 Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.
3 Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]
4 En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.
5 Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]
6 Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.
7 Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.
8 Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.
9 Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]
4 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.
2 Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.
3 Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]
4 Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.
5 Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]
6 Færið réttar fórnir og treystið Drottni.
7 Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.
8 Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.
9 Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.
7 Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.
2 Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,
3 svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.
4 Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,
5 hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,
6 þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]
7 Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.
8 Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.
9 Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.
10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!
11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.
12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.
13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,
14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.
15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.
16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.
17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.
18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.
1 Á þriðja ríkisári Jójakíms konungs í Júda kom Nebúkadnesar konungur í Babýlon til Jerúsalem og settist um hana.
2 Og Drottinn gaf Jójakím Júdakonung á vald hans og nokkuð af áhöldum Guðs húss, og hann flutti þau til Sínearlands í musteri guðs síns, og áhöldin flutti hann í fjárhirslu guðs síns.
3 Og konungur bauð Aspenasi hirðstjóra að velja meðal Ísraelsmanna, bæði af konungsættinni og af höfðingjunum,
4 sveina nokkra, er engin líkamslýti hefðu og væru fríðir sýnum, vel að sér í hvers konar vísindum, fróðir og vel viti bornir og hæfir til að þjóna í konungshöllinni, og kenna þeim bókmenntir og tungu Kaldea.
5 Og konungur ákvað þeim daglegan skammt frá konungsborði og af víni því, er hann sjálfur drakk, og bauð að uppala þá í þrjú ár, og að þeim liðnum skyldu þeir þjóna frammi fyrir konunginum.
6 Og meðal þeirra voru af Júdamönnum þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja.
7 En hirðstjórinn breytti nöfnum þeirra og kallaði Daníel Beltsasar, Hananja Sadrak, Mísael Mesak og Asarja Abed-Negó.
8 En Daníel einsetti sér að saurga sig ekki á matnum frá konungsborði né á víni því, er konungur drakk, og beiddist þess af hirðstjóra, að hann þyrfti ekki að saurga sig.
9 Og Guð lét Daníel verða náðar og líknar auðið hjá hirðstjóranum.
10 En hirðstjórinn sagði við Daníel: "Ég er hræddur um að minn herra konungurinn, sem tiltekið hefir mat yðar og drykk, sjái yður fölari í bragði en aðra sveina á yðar aldri, og verðið þér svo þess valdandi, að ég fyrirgjöri lífi mínu við konunginn."
11 Þá sagði Daníel við tilsjónarmanninn, er hirðstjórinn hafði sett yfir þá Daníel, Hananja, Mísael og Asarja:
12 "Gjör tilraun við oss þjóna þína í tíu daga og lát gefa oss kálmeti að eta og vatn að drekka.
13 Skoða síðan yfirbragð vort og yfirbragð sveina þeirra, er eta við konungsborð, og gjör því næst við oss eftir því, sem þér þá líst á oss."
14 Og hann veitti þeim bón þessa og gjörði tilraun við þá í tíu daga.
15 Og að tíu dögum liðnum reyndust þeir fegurri ásýndum og feitari á hold en allir sveinarnir, sem átu við konungsborð.
16 Eftir það lét tilsjónarmaðurinn bera burt matinn og vínið, sem þeim hafði verið ætlað, og gaf þeim kálmeti.
17 Og þessum fjórum sveinum gaf Guð kunnáttu og skilning á alls konar rit og vísindi, en Daníel kunni og skyn á alls konar vitrunum og draumum.
18 Og er liðinn var sá tími, er konungur hafði tiltekið, að þá skyldi leiða á sinn fund, þá leiddi hirðstjórinn þá fyrir Nebúkadnesar.
19 Og konungur átti tal við þá, en eigi fannst neinn af þeim öllum slíkur sem þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja, og gengu þeir í þjónustu konungs.
20 Og í öllum hlutum, sem viturleik og skilning þurfti við að hafa og konungur spurði þá um, reyndust þeir tíu sinnum fremri en allir spásagnamenn og særingamenn í öllu ríki hans.
21 Og Daníel dvaldist þar allt til fyrsta árs Kýrusar konungs.
1 Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem vér höfum heyrt, það sem vér höfum séð með augum vorum, það sem vér horfðum á og hendur vorar þreifuðu á, það er orð lífsins.
2 Og lífið var opinberað, og vér höfum séð það og vottum um það og boðum yður lífið eilífa, sem var hjá föðurnum og var opinberað oss.
3 Já, það sem vér höfum séð og heyrt, það boðum vér yður einnig, til þess að þér getið líka haft samfélag við oss. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist.
4 Þetta skrifum vér til þess að fögnuður vor verði fullkominn.
5 Og þetta er boðskapurinn, sem vér höfum heyrt af honum og boðum yður: "Guð er ljós, og myrkur er alls ekki í honum."
6 Ef vér segjum: "Vér höfum samfélag við hann," og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum vér og iðkum ekki sannleikann.
7 En ef vér göngum í ljósinu, eins og hann er sjálfur í ljósinu, þá höfum vér samfélag hver við annan og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar oss af allri synd.
8 Ef vér segjum: "Vér höfum ekki synd," þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.
9 Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.
10 Ef vér segjum: "Vér höfum ekki syndgað," þá gjörum vér hann að lygara og orð hans er ekki í oss.
17 1 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá.
2 Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.
3 Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.
4 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður.
5 En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?`
6 En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta.
7 En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.
8 Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _
9 syndin er, að þeir trúðu ekki á mig,
10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,
11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.
by Icelandic Bible Society