Book of Common Prayer
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.
2 Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.
3 Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.
4 Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.
5 Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.
6 Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,
7 en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
8 Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.
9 Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.
10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,
11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.
12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.
13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.
14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni
15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.
16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett
17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.
18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.
19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.
20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.
21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.
22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,
23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.
24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.
25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.
26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.
27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.
30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.
31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,
32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.
33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.
35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.
25 Drottinn, þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt! Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika.
2 Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur.
3 Þess vegna munu harðsnúnar þjóðir heiðra þig og borgir ofríkisfullra þjóða óttast þig.
4 Þú varst vörn lítilmagnans, vörn hins vesala í nauðum hans, skjól í skúrunum, hlíf í hitanum. Þótt andgustur ofríkismannanna sé eins og kuldaskúrir,
5 glaumkæti óvinanna eins og sólarbreiskja í ofþurrki, þá sefar þú sólarbreiskjuna með skugganum af skýinu, og sigursöngur ofríkismannanna hljóðnar.
6 Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.
7 Og hann mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir.
8 Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að Drottinn hefir talað það.
9 Á þeim degi mun sagt verða: "Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er Drottinn, vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!"
13 Þegar þeir sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu, að þeir voru ólærðir leikmenn, undruðust þeir. Þeir könnuðust og við, að þeir höfðu verið með Jesú.
14 Og er þeir sáu manninn, sem læknaður hafði verið, standa hjá þeim, máttu þeir ekki í móti mæla.
15 Þeir skipuðu þeim að ganga út frá ráðinu, tóku saman ráð sín og sögðu:
16 "Hvað eigum vér að gjöra við þessa menn? Því að augljóst er öllum Jerúsalembúum, að ótvírætt tákn er orðið af þeirra völdum. Vér getum ekki neitað því.
17 Þetta má ekki berast frekar út meðal lýðsins. Vér skulum því hóta þeim hörðu, að þeir tali aldrei framar í þessu nafni við nokkurn mann."
18 Síðan kölluðu þeir þá fyrir sig og skipuðu þeim að hætta með öllu að tala eða kenna í Jesú nafni.
19 Pétur og Jóhannes svöruðu: "Dæmið sjálfir, hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast yður fremur en honum.
20 Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt."
21 En þeir ógnuðu þeim enn frekar og slepptu þeim síðan, þar sem þeir sáu enga leið vegna fólksins að hegna þeim, því allir lofuðu Guð fyrir þennan atburð.
22 En maðurinn, sem læknast hafði með þessu tákni, var yfir fertugt.
23 Er þeim hafði verið sleppt, fóru þeir til félaga sinna og greindu þeim frá öllu því, sem æðstu prestarnir og öldungarnir höfðu við þá talað.
24 Þegar þeir heyrðu það, hófu þeir einum huga raust sína til Guðs og sögðu: "Herra, þú sem gjörðir himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er,
25 þú, sem lést heilagan anda mæla af munni Davíðs, föður vors, þjóns þíns: Hví geisuðu heiðingjarnir, og hví hugðu lýðirnir á hégómleg ráð?
26 Konungar jarðarinnar risu upp, og höfðingjarnir söfnuðust saman gegn Drottni og gegn hans Smurða.
27 Því að sannarlega söfnuðust saman í borg þessari gegn hinum heilaga þjóni þínum, Jesú, er þú smurðir, þeir Heródes og Pontíus Pílatus ásamt heiðingjunum og lýðum Ísraels
28 til að gjöra allt það, er hönd þín og ráð hafði fyrirhugað, að verða skyldi.
29 Og nú, Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.
30 Rétt þú út hönd þína til að lækna og lát tákn og undur verða fyrir nafn þíns heilaga þjóns, Jesú."
31 Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.
16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig."
17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: "Hvað er hann að segja við oss: 'Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,' og: 'Ég fer til föðurins'?"
18 Þeir spurðu: "Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara."
19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: "Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`?
20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.
21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn.
22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.
23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.
24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.
25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum.
26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður,
27 því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn.
28 Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins."
29 Lærisveinar hans sögðu: "Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking.
30 Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði."
31 Jesús svaraði þeim: "Trúið þér nú?
32 Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér.
33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn."
by Icelandic Bible Society