Book of Common Prayer
136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
3 þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
4 honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,
5 honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,
6 honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,
7 honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,
8 sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,
9 tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,
10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,
12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,
13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,
14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,
15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,
16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,
17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,
20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,
21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,
22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,
23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,
24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,
25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.
26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.
118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
3 Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
4 Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
7 Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
8 Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,
9 betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.
10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.
15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.
19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.
21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.
24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.
25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!
26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.
27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.
28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.
29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
12 En á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa þína, fram ganga. Og það skal verða svo mikil hörmungatíð, að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma. Á þeim tíma mun þjóð þín frelsuð verða, allir þeir sem skráðir finnast í bókinni.
2 Og margir þeirra, sem sofa í dufti jarðarinnar, munu upp vakna, sumir til eilífs lífs, sumir til smánar, til eilífrar andstyggðar.
3 Og hinir vitru munu skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar og þeir, sem leitt hafa marga til réttlætis, eins og stjörnurnar um aldur og ævi.
4 En þú, Daníel, halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa."
4 Meðan þeir voru að tala til fólksins, komu að þeim prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir.
2 Þeir voru æfir af því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða upprisu dauðra í Jesú.
3 Lögðu þeir hendur á þá og settu þá í varðhald til næsta morguns, því að kvöld var komið.
4 En margir þeirra, er heyrt höfðu orðið, tóku trú, og tala karlmanna varð um fimm þúsundir.
5 Næsta morgun komu höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman í Jerúsalem.
6 Þar voru Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander og allir, sem voru af æðsta prests ættum.
7 Þeir létu leiða postulana fram og spurðu þá: "Með hvaða krafti eða í hvers nafni gjörðuð þið þetta?"
8 Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: "Þér höfðingjar lýðsins og öldungar,
9 með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því, hvernig hann sé heill orðinn,
10 þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar.
11 Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn.
12 Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss."
16 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá.
2 Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.
3 Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.
4 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður.
5 En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?`
6 En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta.
7 En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.
8 Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _
9 syndin er, að þeir trúðu ekki á mig,
10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,
11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.
12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.
13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á.
14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.
15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.
by Icelandic Bible Society