Book of Common Prayer
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
25 Barnabas og Sál sneru aftur frá Jerúsalem að loknu erindi sínu og tóku með sér Jóhannes, öðru nafni Markús.
13 Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál.
2 Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: "Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til."
3 Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara.
67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.
2 Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]
3 svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.
4 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
5 Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]
6 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
7 Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.
8 Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
4 Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, með endurkomu hans fyrir augum og ríki hans heiti ég á þig:
2 Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu.
3 Því að þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun.
4 Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum.
5 En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.
6 Nú er svo komið, að mér verður fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp.
7 Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.
8 Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.
9 Reyndu að koma sem fyrst til mín,
10 því að Demas hefur yfirgefið mig vegna þess að hann elskaði þennan heim. Hann er farinn til Þessaloníku. Kreskes er farinn til Galatíu og Títus til Dalmatíu.
11 Lúkas er einn hjá mér. Tak þú Markús og lát hann koma með þér, því að hann er mér þarfur til þjónustu.
by Icelandic Bible Society