Book of Common Prayer
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,
2 varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.
3 Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.
4 Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.
5 Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,
6 þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?
7 Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,
8 hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.
18 En Drottinn bíður þess að geta miskunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að Drottinn er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.
19 Já, þú lýður í Síon, þú sem býr í Jerúsalem, grát þú eigi án afláts. Hann mun vissulega miskunna þér, þegar þú kallar í neyðinni, hann mun bænheyra þig, þegar hann heyrir til þín.
20 Drottinn mun gefa yður neyðarbrauð og þrengingarvatn. En hann, sem kennir þér, mun þá eigi framar fela sig, heldur munu augu þín líta hann,
21 og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: "Hér er vegurinn! Farið hann!"
36 Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi."
37 Er þeir heyrðu þetta, var sem stungið væri í hjörtu þeirra, og þeir sögðu við Pétur og hina postulana: "Hvað eigum vér að gjöra, bræður?"
38 Pétur sagði við þá: "Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.
39 Því að yður er ætlað fyrirheitið, börnum yðar og öllum þeim, sem í fjarlægð eru, öllum þeim, sem Drottinn Guð vor kallar til sín."
40 Og með öðrum fleiri orðum vitnaði hann, áminnti þá og sagði: "Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð."
41 En þeir, sem veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.
42 Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.
43 Ótta setti að hverjum manni, en mörg undur og tákn gjörðust fyrir hendur postulanna.
44 Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt.
45 Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á.
46 Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans.
47 Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.
15 Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.
16 Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu,
17 anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður.
18 Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar.
19 Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa.
20 Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður.
21 Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig."
22 Júdas _ ekki Ískaríot _ sagði við hann: "Herra, hverju sætir það, að þú vilt birtast oss, en eigi heiminum?"
23 Jesús svaraði: "Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.
24 Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur föðurins, sem sendi mig.
25 Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður.
26 En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.
27 Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.
28 Þér heyrðuð, að ég sagði við yður: ,Ég fer burt og kem til yðar.` Ef þér elskuðuð mig, yrðuð þér glaðir af því, að ég fer til föðurins, því faðirinn er mér meiri.
29 Nú hef ég sagt yður það, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það gerist.
30 Ég mun ekki framar tala margt við yður, því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekki neitt.
31 En heimurinn á að sjá, að ég elska föðurinn og gjöri eins og faðirinn hefur boðið mér. Standið upp, vér skulum fara héðan."
by Icelandic Bible Society