Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 148-150

148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.

Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.

Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.

Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.

Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.

Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.

Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,

eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,

fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,

10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,

11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,

12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!

13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.

14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.

149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.

Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.

Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.

Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.

Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum

með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum

til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,

til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,

til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.

150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!

Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!

Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!

Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!

Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!

Sálmarnir 113-114

113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.

Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.

Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.

Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt

og horfir djúpt á himni og á jörðu.

Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum

og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.

Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.

114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,

varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.

Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.

Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.

Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,

þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?

Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,

hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.

Sálmarnir 118

118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.

Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.

Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,

betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.

10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.

14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.

15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,

16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.

17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.

18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.

19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.

20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.

21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.

22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.

23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.

24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.

25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!

26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.

27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.

28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.

29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Önnur bók Móse 12:1-14

12 Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið:

"Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður.

Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: ,Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili.

En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið.

Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið.

Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur.

Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið.

Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það.

Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innýflum.

10 Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi.

11 Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins.

12 Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn.

13 Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland.

14 Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli.`

Jesaja 51:9-11

Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrkleika, armleggur Drottins! Vakna þú, eins og fyrr á tíðum, eins og í árdaga! Varst það eigi þú, sem banaðir skrímslinu og lagðir í gegn drekann?

10 Varst það eigi þú, sem þurrkaðir upp hafið, vötn hins mikla djúps, sem gjörðir sjávardjúpin að vegi, svo að hinir endurleystu gætu komist yfir?

11 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa og koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.

Jóhannesarguðspjall 1:1-18

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.

Hann var í upphafi hjá Guði.

Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.

Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.

Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.

Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.

Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.

10 Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.

11 Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.

12 En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.

13 Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

14 Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.

15 Jóhannes vitnar um hann og hrópar: "Þetta er sá sem ég átti við, þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég."

16 Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan.

17 Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist.

18 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.

Lúkasarguðspjall 24:13-35

13 Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus.

14 Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði.

15 Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim.

16 En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki.

17 Og hann sagði við þá: "Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?" Þeir námu staðar, daprir í bragði,

18 og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: "Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana."

19 Hann spurði: "Hvað þá?" Þeir svöruðu: "Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð,

20 hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann.

21 Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við.

22 Þá hafa og konur nokkrar úr vorum hóp gjört oss forviða. Þær fóru árla til grafarinnar,

23 en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð engla í sýn, er sögðu hann lifa.

24 Nokkrir þeirra, sem með oss voru, fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt, en hann sáu þeir ekki."

25 Þá sagði hann við þá: "Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað!

26 Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?"

27 Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.

28 Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra.

29 Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: "Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar." Og hann fór inn til að vera hjá þeim.

30 Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim.

31 Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum.

32 Og þeir sögðu hvor við annan: "Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?"

33 Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þá, er með þeim voru, saman komna,

34 og sögðu þeir: "Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni."

35 Hinir sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið.

Jóhannesarguðspjall 20:19-23

19 Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA.

20 Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku.

21 Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: "Skrifaðu ekki ,konungur Gyðinga`, heldur að hann hafi sagt: ,Ég er konungur Gyðinga`."

22 Pílatus svaraði: "Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað."

23 Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society