Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 95

95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.

Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.

Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.

Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.

Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.

Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,

því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!

Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,

þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.

10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."

11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."

Sálmarnir 88

88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.

Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.

Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,

því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.

Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.

Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.

Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.

Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]

Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,

10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.

11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]

12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?

13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?

14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.

15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?

16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.

17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.

18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.

19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.

Sálmarnir 27

27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?

Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.

Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.

Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.

Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.

Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!

Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.

Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.

10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.

12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.

13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!

14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.

Jobsbók 19:21-27

21 Aumkið mig, aumkið mig, vinir mínir, því að hönd Guðs hefir lostið mig.

22 Hví ofsækið þér mig eins og Guð og verðið eigi saddir á holdi mínu?

23 Ó að orð mín væru skrifuð upp, ó að þau væru skráð í bók

24 með járnstíl og blýi, að eilífu höggvin í klett!

25 Ég veit, að lausnari minn lifir, og hann mun síðastur ganga fram á foldu.

26 Og eftir að þessi húð mín er sundurtætt og allt hold er af mér, mun ég líta Guð.

27 Ég mun líta hann mér til góðs, já, augu mín sjá hann, og það eigi sem andstæðing, _ hjartað brennur af þrá í brjósti mér!

Bréfið til Hebrea 4

Fyrirheitið um það að ganga inn til hvíldar hans stendur enn, vörumst því að nokkur yðar verði til þess að dragast aftur úr.

Fagnaðarerindið var oss boðað eigi síður en þeim. En orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi vegna þess, að þeir tóku ekki við því í trú.

En vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar eins og hann hefur sagt: "Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar." Þó voru verk Guðs fullgjör frá grundvöllun heims.

Því að einhvers staðar er svo að orði kveðið um hinn sjöunda dag: "Og Guð hvíldist hinn sjöunda dag eftir öll verk sín."

Og aftur á þessum stað: "Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar."

Enn stendur því til boða, að nokkrir gangi inn til hvíldar Guðs. Þeir, sem fagnaðarerindið var fyrr boðað, gengu ekki inn sakir óhlýðni.

Því ákveður Guð aftur dag einn, er hann segir löngu síðar fyrir munn Davíðs: "Í dag." Eins og fyrr hefur sagt verið: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar."

Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag.

Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.

10 Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk.

11 Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.

12 Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.

13 Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.

14 Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna.

15 Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.

16 Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.

Bréf Páls til Rómverja 8:1-11

Nú er því engin fordæming fyrir þá, sem tilheyra Kristi Jesú.

Lögmál lífsins anda hefur í Kristi Jesú frelsað þig frá lögmáli syndarinnar og dauðans.

Það sem lögmálinu var ógerlegt, að því leyti sem það mátti sín einskis fyrir holdinu, það gjörði Guð. Með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns gegn syndinni, dæmdi Guð syndina í manninum.

Þannig varð réttlætiskröfu lögmálsins fullnægt hjá oss, sem lifum ekki eftir holdi, heldur eftir anda.

Því að þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er.

Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður.

Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki.

Þeir, sem eru holdsins menn, geta ekki þóknast Guði.

En þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, þar sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans.

10 Ef Kristur er í yður, þá er líkaminn að sönnu dauður vegna syndarinnar, en andinn veitir líf vegna réttlætisins.

11 Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society