Book of Common Prayer
102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.
2 Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.
3 Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.
4 Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.
5 Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.
6 Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.
7 Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.
8 Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.
9 Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.
10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum
11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.
12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.
13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.
14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.
15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.
16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,
17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.
18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.
19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.
20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar
21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,
22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,
23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.
24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.
25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.
26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.
28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.
29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.
142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.
2 Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.
3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.
4 Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.
5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.
6 Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.
7 Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.
8 Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.
143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.
2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.
3 Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.
4 Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.
5 Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.
6 Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]
7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.
8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.
9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.
10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.
11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.
12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.
7 Þú hefir tælt mig, Drottinn, og ég lét tælast! Þú tókst mig tökum og barst hærra hlut. Ég er orðinn að stöðugu athlægi, allir gjöra gys að mér.
8 Já, í hvert sinn er ég tala, verð ég að kvarta undan ofbeldi og kúgun, því að orð Drottins hefir orðið mér til stöðugrar háðungar og spotts.
9 Ef ég hugsaði: "Ég skal ekki minnast hans og eigi framar tala í hans nafni," þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.
10 Já, ég hefi heyrt illyrði margra _ skelfing allt um kring: "Kærið hann!" og "Vér skulum kæra hann!" Jafnvel allir þeir, sem ég hefi verið í vináttu við, vaka yfir því, að ég hrasi: "Ef til vill lætur hann ginnast, svo að vér fáum yfirstigið hann og hefnt vor á honum."
11 En Drottinn er með mér eins og voldug hetja. Fyrir því munu ofsóknarmenn mínir steypast og engu áorka. Þeir skulu verða herfilega til skammar, af því að þeir hafa ekki farið viturlega að ráði sínu _ til eilífrar, ógleymanlegrar smánar.
14 Fyrir því, mínir elskuðu, flýið skurðgoðadýrkunina.
15 Ég tala til yðar sem skynsamra manna. Dæmið þér um það, sem ég segi.
16 Sá bikar blessunarinnar, sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið, sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists?
17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hinir mörgu einn líkami, því að vér höfum allir hlutdeild í hinu eina brauði.
27 Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins óverðuglega, verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins.
28 Hver maður prófi sjálfan sig og eti síðan af brauðinu og drekki af bikarnum.
29 Því að sá sem etur og drekkur án þess að dæma rétt um líkamann, hann etur og drekkur sjálfum sér til dóms.
30 Fyrir því eru svo margir sjúkir og krankir á meðal yðar, og allmargir deyja.
31 Ef vér dæmdum um sjálfa oss, yrðum vér ekki dæmdir.
32 En fyrst Drottinn dæmir oss, þá er hann að aga oss til þess að vér verðum ekki dæmdir sekir ásamt heiminum.
17 1 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá.
2 Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.
3 Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.
4 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður.
5 En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?`
6 En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta.
7 En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.
8 Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _
9 syndin er, að þeir trúðu ekki á mig,
10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,
11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.
12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.
13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á.
14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.
15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.
16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig."
17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: "Hvað er hann að segja við oss: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,` og: ,Ég fer til föðurins`?"
18 Þeir spurðu: "Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara."
19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: "Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`?
20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.
21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn.
22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.
23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.
24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.
25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum.
26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður,
27 því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn.
28 Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins."
29 Lærisveinar hans sögðu: "Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking.
30 Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði."
31 Jesús svaraði þeim: "Trúið þér nú?
32 Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér.
33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn."
by Icelandic Bible Society