Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 6

Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.

Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?

Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?

Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.

Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.

Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.

10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.

11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.

Sálmarnir 12

12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.

Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.

Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,

þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"

"Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."

Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.

Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.

Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.

Sálmarnir 94

94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!

Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!

Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?

Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.

Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,

drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa

og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."

Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?

Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?

10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?

11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.

12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,

13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.

14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,

15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.

16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?

17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.

18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.

19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.

20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?

21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.

22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.

23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.

Jeremía 15:10-21

10 Vei mér, móðir mín, að þú skyldir fæða mig, mig sem allir menn í landinu deila og þrátta við. Ekkert hefi ég öðrum lánað og ekkert hafa aðrir lánað mér, og þó formæla þeir mér allir.

11 Drottinn sagði: Vissulega mun ég frelsa þig, ég mun vissulega láta óvininn grátbæna þig, þegar óhamingjuna og neyðina ber að höndum.

12 Verður járn brotið sundur, járn að norðan, og eir?

13 Eigur þínar og fjársjóðu ofursel ég að herfangi, ekki fyrir verð, heldur fyrir allar syndir þínar, og það fyrir þær syndir, er þú hefir drýgt í öllum héruðum þínum.

14 Og ég læt þig þjóna óvinum þínum í landi, sem þú þekkir ekki, því að reiði mín er eldur brennandi, gegn yður logar hann.

15 Þú veist það, Drottinn, minnstu mín og vitjaðu mín og hefn mín á ofsóknurum mínum. Hríf mig ekki burt í þolinmæði þinni við þá, mundu það, að ég þoli smán þín vegna.

16 Kæmu orð frá þér, gleypti ég við þeim, og orð þín voru mér unun og fögnuður hjarta míns, því að ég er nefndur eftir nafni þínu, Drottinn, Guð allsherjar.

17 Ég sat ekki í hóp hlæjandi manna til þess að skemmta mér. Gripinn af þinni hendi sat ég einsamall, af því að þú fylltir mig helgri reiði.

18 Hví er kvöl mín orðin ævarandi og sár mitt svo illkynjað, að það verður ekki grætt? Þú ert mér sem svikull lækur, eins og vatn, sem ekki er unnt að reiða sig á.

19 Þessu svaraði Drottinn svo: Ef þú lætur af þessu víli þínu, mun ég aftur láta þig ganga fram fyrir mig. Og ef þú framleiðir aðeins dýrmæta hluti, en enga lélega, þá skalt þú aftur vera mér munnur. Þeir skulu snúa við til þín, en þú skalt ekki snúa við til þeirra.

20 Og ég gjöri þig gagnvart þessum lýð að rammbyggðum eirvegg, og þótt þeir berjist við þig, skulu þeir eigi fá yfirstigið þig, því að ég er með þér til þess að hjálpa þér og frelsa þig _ segir Drottinn.

21 Ég frelsa þig undan valdi vondra manna og losa þig úr höndum ofbeldismanna.

Bréf Páls til Filippímann 3:15-21

15 Þetta hugarfar skulum vér því allir hafa, sem fullkomnir erum. Og ef þér hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera yður þetta.

16 Fyrir alla muni skulum vér ganga þá götu, sem vér höfum komist á.

17 Bræður, breytið allir eftir mér og festið sjónir yðar á þeim, sem breyta eftir þeirri fyrirmynd, er vér höfum yður gefið.

18 Margir breyta, _ ég hef oft sagt yður það og nú segi ég það jafnvel grátandi _, eins og óvinir kross Krists.

19 Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum.

20 En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists.

21 Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama vorum og gjöra hann líkan dýrðarlíkama sínum. Því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.

Jóhannesarguðspjall 12:20-26

20 Grikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni.

21 Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: "Herra, oss langar að sjá Jesú."

22 Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú.

23 Jesús svaraði þeim: "Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur.

24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.

25 Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.

26 Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society