Book of Common Prayer
137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.
2 Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.
3 Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"
4 Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?
5 Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.
6 Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.
7 Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"
8 Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!
9 Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.
144 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu.
2 Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig.
3 Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum.
4 Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi.
5 Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.
6 Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá.
7 Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna.
8 Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
9 Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.
10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.
11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.
12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.
13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,
14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.
15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
27 Sjá, þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að ég sái Ísraels hús og Júda hús með mannsáði og fénaðarsáði,
28 og eins og ég vakti yfir þeim til þess að uppræta og umturna, rífa niður og eyða og vinna þeim mein, þannig mun ég og vaka yfir þeim til þess að byggja og gróðursetja _ segir Drottinn.
29 Á þeim dögum munu menn eigi framar segja: "Feðurnir átu súr vínber og tennur barnanna urðu sljóar!"
30 Heldur mun hver deyja fyrir eigin misgjörð. Hver sá maður, er etur súr vínber, hans tennur munu sljóar verða.
31 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun gjöra nýjan sáttmála við Ísraels hús og Júda hús,
32 ekki eins og þann sáttmála, er ég gjörði við feður þeirra, þá er ég tók í hönd þeirra til þess að leiða þá út af Egyptalandi, sáttmálann sem þeir hafa rofið, þótt ég væri herra þeirra _ segir Drottinn.
33 En í þessu skal sáttmálinn fólginn vera, sá er ég gjöri við Ísraels hús eftir þetta _ segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.
34 Og þeir skulu ekki framar kenna hver öðrum, né einn bróðirinn öðrum, og segja: "Lærið að þekkja Drottin," því að þeir munu allir þekkja mig, bæði smáir og stórir _ segir Drottinn. Því að ég mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra.
25 Ég vil ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þennan leyndardóm, til þess að þér skuluð ekki með sjálfum yður ætla yður hyggna. Forherðing er komin yfir nokkurn hluta af Ísrael og varir þangað til heiðingjarnir eru allir komnir inn.
26 Og þannig mun allur Ísrael frelsaður verða, eins og ritað er: Frá Síon mun frelsarinn koma og útrýma guðleysi frá Jakob.
27 Og þetta er sáttmáli minn við þá, þegar ég tek burt syndir þeirra.
28 Í ljósi fagnaðarerindisins eru þeir óvinir Guðs vegna yðar, en í ljósi útvalningarinnar elskaðir sakir feðranna.
29 Guð iðrar ekki náðargjafa sinna og köllunar.
30 Þér voruð fyrrum óhlýðnir Guði, en hafið nú hlotið miskunn vegna óhlýðni þeirra.
31 Þannig hafa þeir nú líka orðið óhlýðnir, til þess að einnig þeim mætti miskunnað verða fyrir miskunn þá, sem yður er veitt.
32 Guð hefur gefið alla óhlýðninni á vald, til þess að hann geti miskunnað öllum.
33 Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!
34 Hver hefur þekkt huga Drottins? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans?
35 Hver hefur að fyrra bragði gefið honum, svo að það eigi að verða honum endurgoldið?
36 Því að frá honum og fyrir hann og til hans eru allir hlutir. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.
28 Að svo mæltu fór hún, kallaði á Maríu systur sína og sagði í hljóði: "Meistarinn er hér og vill finna þig."
29 Þegar María heyrði þetta, reis hún skjótt á fætur og fór til hans.
30 En Jesús var ekki enn kominn til þorpsins, heldur var hann enn á þeim stað, þar sem Marta hafði mætt honum.
31 Gyðingarnir, sem voru heima hjá Maríu að hugga hana, sáu, að hún stóð upp í skyndi og gekk út, og fóru þeir á eftir henni. Þeir hugðu, að hún hefði farið til grafarinnar að gráta þar.
32 María kom þangað, sem Jesús var, og er hún sá hann, féll hún honum til fóta og sagði við hann: "Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn."
33 Þegar Jesús sá hana gráta og Gyðingana gráta, sem með henni komu, komst hann við í anda og varð hrærður mjög
34 og sagði: "Hvar hafið þér lagt hann?" Þeir sögðu: "Herra, kom þú og sjá."
35 Þá grét Jesús.
36 Gyðingar sögðu: "Sjá, hversu hann hefur elskað hann!"
37 En nokkrir þeirra sögðu: "Gat ekki sá maður, sem opnaði augu hins blinda, einnig varnað því, að þessi maður dæi?"
38 Jesús varð aftur hrærður mjög og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir.
39 Jesús segir: "Takið steininn frá!" Marta, systir hins dána, segir við hann: "Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag."
40 Jesús segir við hana: "Sagði ég þér ekki: ,Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs`?"
41 Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: "Faðir, ég þakka þér, að þú hefur bænheyrt mig.
42 Ég vissi að sönnu, að þú heyrir mig ávallt, en ég sagði þetta vegna mannfjöldans, sem stendur hér umhverfis, til þess að þeir trúi, að þú hafir sent mig."
43 Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: "Lasarus, kom út!"
44 Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við þá: "Leysið hann og látið hann fara."
37 Þótt hann hefði gjört svo mörg tákn fyrir augum þeirra, trúðu þeir ekki á hann,
38 svo að rættist orð Jesaja spámanns, er hann mælti: Drottinn, hver trúði boðun vorri, og hverjum varð armur Drottins opinber?
39 Þess vegna gátu þeir ekki trúað, enda segir Jesaja á öðrum stað:
40 Hann hefur blindað augu þeirra og forhert hjarta þeirra, að þeir sjái ekki með augunum né skilji með hjartanu og snúi sér og ég lækni þá.
41 Jesaja sagði þetta af því að hann sá dýrð hans og talaði um hann.
42 Samt trúðu margir á hann, jafnvel höfðingjar, en gengust ekki við því vegna faríseanna, svo að þeir yrðu ekki samkundurækir.
43 Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.
44 En Jesús hrópaði: "Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig,
45 og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig.
46 Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.
47 Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn.
48 Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi.
49 Því ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala.
50 Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf. Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér."
by Icelandic Bible Society