Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 31

31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,

hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.

Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.

Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.

Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!

Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég.

Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni

og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi.

10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami.

11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast.

12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.

13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.

14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi.

15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"

16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.

17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.

19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.

20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.

21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.

22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.

23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.

24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.

25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.

Sálmarnir 35

35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.

Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.

Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"

Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.

Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.

Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.

Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.

Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.

En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.

10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"

11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.

12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.

13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,

14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.

15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.

16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.

17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.

18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.

19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.

20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.

21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"

22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.

23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.

24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,

25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."

26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.

27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"

28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.

Jeremía 24

24 Drottinn lét mig sjá: Tvær karfir fullar af fíkjum voru settar fyrir framan musteri Drottins, eftir að Nebúkadresar Babelkonungur hafði herleitt Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og höfðingjana í Júda og trésmiðina og járnsmiðina burt frá Jerúsalem og flutt þá til Babýlon.

Í annarri körfinni voru mjög góðar fíkjur, líkar árfíkjum, en í hinni körfinni voru mjög vondar fíkjur, sem voru svo vondar, að þær voru óætar.

Þá sagði Drottinn við mig: Hvað sér þú, Jeremía? Og ég svaraði: Fíkjur! Góðu fíkjurnar eru mjög góðar, en þær vondu eru mjög vondar, já svo vondar, að þær eru óætar.

Þá kom orð Drottins til mín:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Eins og á þessar góðu fíkjur, svo lít ég á hina herleiddu úr Júda, sem ég hefi sent héðan til Kaldealands, þeim til heilla.

Ég beini augum mínum á þá þeim til heilla og flyt þá aftur inn í þetta land, svo að ég megi byggja þá upp og ekki rífa þá niður aftur og gróðursetja þá og ekki uppræta þá aftur.

Og ég gef þeim hjarta til að þekkja mig, að ég er Drottinn, og þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, þegar þeir snúa sér til mín af öllu hjarta.

Og eins og vondu fíkjurnar, sem eru svo vondar, að þær eru óætar _ já, svo segir Drottinn _, þannig vil ég fara með Sedekía konung í Júda og höfðingja hans og leifarnar af Jerúsalem, þá sem eftir eru í þessu landi og þá sem setst hafa að í Egyptalandi.

Ég mun gjöra þá að grýlu, að andstyggð öllum konungsríkjum jarðar, að háðung, orðskvið, spotti og formæling á öllum þeim stöðum, þangað sem ég rek þá.

10 Og ég sendi sverð, hungur og drepsótt í móti þeim, þar til er þeir eru gjöreyddir úr landinu, sem ég gaf þeim og feðrum þeirra.

Bréf Páls til Rómverja 9:19-33

19 Þú munt nú vilja segja við mig: "Hvað er hann þá að ásaka oss framar? Hver fær staðið gegn vilja hans?"

20 Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: "Hví gjörðir þú mig svona?"

21 Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar?

22 En ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar,

23 og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar?

24 Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja.

25 Eins og hann líka segir hjá Hósea: Lýð, sem ekki var minn, mun ég kalla minn, og þá elskaða, sem ekki var elskuð,

26 og á þeim stað, þar sem við þá var sagt: þér eruð ekki minn lýður, þar munu þeir verða kallaðir synir Guðs lifanda.

27 En Jesaja hrópar yfir Ísrael: "Þótt tala Ísraels sona væri eins og sandur sjávarins, þá skulu leifar einar frelsaðar verða.

28 Drottinn mun gjöra upp reikning sinn á jörðunni, binda enda á hann og ljúka við hann í skyndi,"

29 og eins hefur Jesaja sagt: "Ef Drottinn hersveitanna hefði ekki látið oss eftir niðja, værum vér orðnir eins og Sódóma, vér værum líkir Gómorru."

30 Hvað eigum vér þá að segja? Heiðingjarnir, sem ekki sóttust eftir réttlæti, hafa öðlast réttlæti, _ réttlæti, sem er af trú.

31 En Ísrael, sem vildi halda lögmál er veitt gæti réttlæti, náði því ekki.

32 Hvers vegna? Af því að þeir ætluðu sér að réttlætast með verkum, ekki af trú. Þeir hnutu um ásteytingarsteininn,

33 eins og ritað er: Sjá ég set í Síon ásteytingarstein og hrösunarhellu. Sérhver, sem á hann trúir, mun ekki verða til skammar.

Jóhannesarguðspjall 9:1-17

Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu.

Lærisveinar hans spurðu hann: "Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?"

Jesús svaraði: "Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.

Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið.

Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins."

Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans

og sagði við hann: "Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam." (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.

Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: "Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?"

Sumir sögðu: "Sá er maðurinn," en aðrir sögðu: "Nei, en líkur er hann honum." Sjálfur sagði hann: "Ég er sá."

10 Þá sögðu þeir við hann: "Hvernig opnuðust augu þín?"

11 Hann svaraði: "Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér."

12 Þeir sögðu við hann: "Hvar er hann?" Hann svaraði: "Það veit ég ekki."

13 Þeir fara til faríseanna með manninn, sem áður var blindur.

14 En þá var hvíldardagur, þegar Jesús bjó til leðjuna og opnaði augu hans.

15 Farísearnir spurðu hann nú líka, hvernig hann hefði fengið sjónina. Hann svaraði þeim: "Hann lagði leðju á augu mín, ég þvoði mér, og nú sé ég."

16 Þá sögðu nokkrir farísear: "Þessi maður er ekki frá Guði, fyrst hann heldur ekki hvíldardaginn." Aðrir sögðu: "Hvernig getur syndugur maður gjört þvílík tákn?" Og ágreiningur varð með þeim.

17 Þá segja þeir aftur við hinn blinda: "Hvað segir þú um hann, fyrst hann opnaði augu þín?" Hann sagði: "Hann er spámaður."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society