Book of Common Prayer
33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,
34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.
35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum
36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,
37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.
38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum og fénað þeirra lætur hann eigi fækka.
39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður sakir þrengingar af böli og harmi,
40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn og lætur þá villast um veglaus öræfi,
41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni og gjörir ættirnar sem hjarðir.
42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast, og öll illska lokar munni sínum.
43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.
108 Ljóð. Davíðssálmur.
2 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!
3 Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
4 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
5 því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,
7 til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.
8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.
33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.
2 Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.
3 Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.
4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.
5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.
6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.
7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.
8 Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,
9 því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.
10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,
11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.
13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,
14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,
15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.
16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.
18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.
19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.
20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.
21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.
22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
9 Um spámennina: Hjartað í brjósti mér er sundurmarið, öll bein mín skjálfa. Ég er eins og drukkinn maður, eins og maður sem vínið hefir bugað, vegna Drottins og vegna hans heilögu orða.
10 Landið er fullt af hórkörlum, já, vegna bölvunarinnar syrgir landið, og beitilöndin í öræfunum eru skrælnuð. Þeir hlaupa á eftir vonsku og styrkur þeirra er ósannsögli.
11 Bæði spámenn og prestar eru guðlausir, jafnvel í húsi mínu hefi ég rekið mig á vonsku þeirra _ segir Drottinn.
12 Fyrir því mun vegur þeirra verða þeim eins og sleipir staðir í myrkri. Þeim skal verða hrundið, svo að þeir detti á honum, því að ég leiði óhamingju yfir þá árið sem þeim verður refsað _ segir Drottinn.
13 Hjá spámönnum Samaríu sá ég hneykslanlegt athæfi: Þeir spáðu í nafni Baals og leiddu lýð minn Ísrael afvega.
14 En hjá spámönnum Jerúsalem sá ég hryllilegt athæfi: Þeir drýgja hór og fara með lygar og veita illgjörðarmönnum liðveislu, svo að enginn þeirra snýr sér frá illsku sinni. Þeir eru allir orðnir mér eins og Sódóma og íbúar hennar eins og Gómorra.
15 Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo um spámennina: Sjá, ég vil gefa þeim malurt að eta og eiturvatn að drekka, því að frá spámönnum Jerúsalem hefir guðleysi breiðst út um allt landið.
9 Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki. Samviska mín vitnar það með mér, upplýst af heilögum anda,
2 að ég hef hryggð mikla og sífellda kvöl í hjarta mínu.
3 Ég gæti óskað, að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi, ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn,
4 Ísraelsmenn. Þeir fengu sonarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin.
5 Þeim tilheyra og feðurnir, og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður um aldir. Amen.
6 Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn, sem af Ísrael eru komnir.
7 Ekki eru heldur allir börn Abrahams, þótt þeir séu niðjar hans, heldur: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."
8 Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur hans Guðs börn, heldur teljast fyrirheitsbörnin sannir niðjar.
9 Því að þetta orð er fyrirheit: "Í þetta mund mun ég aftur koma, og þá skal Sara hafa son alið."
10 Og ekki nóg með það. Því var líka svo farið með Rebekku. Hún var þunguð að tveim sveinum af eins manns völdum, Ísaks föður vors.
11 Nú, til þess að það stæði stöðugt, að ákvörðun Guðs um útvalningu væri óháð verkunum og öll komin undir vilja þess, er kallar,
12 þá var henni sagt, áður en sveinarnir voru fæddir og áður en þeir höfðu aðhafst gott eða illt: "Hinn eldri skal þjóna hinum yngri."
13 Eins og ritað er: "Jakob elskaði ég, en Esaú hataði ég."
14 Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því.
15 Því hann segir við Móse: "Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna."
16 Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar.
17 Því er í Ritningunni sagt við Faraó: "Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina."
18 Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill.
60 Margir af lærisveinum hans, er á hlýddu, sögðu: "Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?"
61 Jesús vissi með sjálfum sér, að kurr var með lærisveinum hans út af þessu, og sagði við þá: "Hneykslar þetta yður?
62 En ef þér sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað, sem hann áður var?
63 Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert. Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf.
64 En meðal yðar eru nokkrir, sem ekki trúa." Jesús vissi frá upphafi, hverjir þeir voru, sem trúðu ekki, og hver sá var, sem mundi svíkja hann.
65 Og hann bætti við: "Vegna þess sagði ég við yður: Enginn getur komið til mín, nema faðirinn veiti honum það."
66 Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum.
67 Þá sagði Jesús við þá tólf: "Ætlið þér að fara líka?"
68 Símon Pétur svaraði honum: "Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs,
69 og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs."
70 Jesús svaraði þeim: "Hef ég eigi sjálfur útvalið yður tólf? Þó er einn yðar djöfull."
71 En hann átti við Júdas Símonarson Ískaríots, sem varð til að svíkja hann, einn þeirra tólf.
by Icelandic Bible Society