Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 101

101 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn.

Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.

Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.

Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda.

Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.

Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.

Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.

Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.

Sálmarnir 109:1-30

109 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,

því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér, tala við mig með ljúgandi tungu.

Með hatursorðum umkringja þeir mig og áreita mig að ástæðulausu.

Þeir launa mér elsku mína með ofsókn, en ég gjöri ekki annað en biðja.

Þeir launa mér gott með illu og elsku mína með hatri.

Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn, og ákærandinn standi honum til hægri handar.

Hann gangi sekur frá dómi og bæn hans verði til syndar.

Dagar hans verði fáir, og annar hljóti embætti hans.

Börn hans verði föðurlaus og kona hans ekkja.

10 Börn hans fari á flæking og vergang, þau verði rekin burt úr rústum sínum.

11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans, og útlendir fjandmenn ræni afla hans.

12 Enginn sýni honum líkn, og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.

13 Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.

14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni og synd móður hans eigi afmáð,

15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins og hann afmái minningu þeirra af jörðunni

16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku, heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.

17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum, hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.

18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli, hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn og í bein hans sem olía,

19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig, og sem belti, er hann sífellt gyrðist.

20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni og þeirra, er tala illt í gegn mér.

21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar, frelsa mig sakir nafns þíns,

22 því að ég er hrjáður og snauður, hjartað berst ákaft í brjósti mér.

23 Ég hverf sem hallur skuggi, ég er hristur út eins og jarðvargar.

24 Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.

25 Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.

26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni,

27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.

28 Bölvi þeir, þú munt blessa, verði þeir til skammar, er rísa gegn mér, en þjónn þinn gleðjist.

29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing, sveipi um sig skömminni eins og skikkju.

30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,

Sálmarnir 119:121-144

121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti, sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.

122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig.

123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu og eftir þínu réttláta fyrirheiti.

124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni og kenn mér lög þín.

125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur þínar.

126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana, þeir hafa rofið lögmál þitt.

127 Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull.

128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg.

129 Reglur þínar eru dásamlegar, þess vegna heldur sál mín þær.

130 Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra.

131 Ég opna munninn af ílöngun, því ég þrái boð þín.

132 Snú þér til mín og ver mér náðugur, eins og ákveðið er þeim er elska nafn þitt.

133 Gjör skref mín örugg með fyrirheiti þínu og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér.

134 Leys mig undan kúgun manna, að ég megi varðveita fyrirmæli þín.

135 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn og kenn mér lög þín.

136 Augu mín fljóta í tárum, af því að menn varðveita eigi lögmál þitt.

137 Réttlátur ert þú, Drottinn, og réttvísir dómar þínir.

138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti og mikilli trúfesti.

139 Ákefð mín eyðir mér, því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.

140 Orð þitt er mjög hreint, og þjónn þinn elskar það.

141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn, en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.

142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt trúfesti.

143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið, en boð þín eru unun mín.

144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa.

Jeremía 18:1-11

18 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:

Statt upp og gakk ofan í hús leirkerasmiðsins. Þar vil ég láta þig heyra orð mín!

Og ég gekk ofan í hús leirkerasmiðsins, og var hann að verki sínu við hjólið.

Mistækist kerið, sem hann var að búa til, þá bjó hann aftur til úr því annað ker, eins og leirkerasmiðinum leist að gjöra.

Þá kom orð Drottins til mín:

Get ég ekki farið með yður eins og þessi leirkerasmiður, þú Ísraels hús? _ segir Drottinn. Sjá, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins, svo eruð þér í minni hendi, Ísraels hús.

Stundum hóta ég þjóð og konungsríki að uppræta það, umturna því og eyða því,

en snúi þjóðin, er ég hefi hótað þessu, sér frá vonsku sinni, þá iðrar mig hins illa, er ég hugði að gjöra henni.

En stundum heiti ég þjóð og konungsríki að byggja það og gróðursetja það,

10 en ef það gjörir það, sem illt er í mínum augum, svo að það hlýðir ekki minni raustu, þá iðrar mig þess góða, er ég hafði heitið að veita því.

11 Seg þú nú við Júdamenn og Jerúsalembúa á þessa leið: Svo segir Drottinn: Sjá, ég bý yður ógæfu og brugga ráð gegn yður. Snúið yður hver og einn frá sinni vondu breytni og temjið yður góða breytni og góð verk!

Bréf Páls til Rómverja 8:1-11

Nú er því engin fordæming fyrir þá, sem tilheyra Kristi Jesú.

Lögmál lífsins anda hefur í Kristi Jesú frelsað þig frá lögmáli syndarinnar og dauðans.

Það sem lögmálinu var ógerlegt, að því leyti sem það mátti sín einskis fyrir holdinu, það gjörði Guð. Með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns gegn syndinni, dæmdi Guð syndina í manninum.

Þannig varð réttlætiskröfu lögmálsins fullnægt hjá oss, sem lifum ekki eftir holdi, heldur eftir anda.

Því að þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er.

Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður.

Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki.

Þeir, sem eru holdsins menn, geta ekki þóknast Guði.

En þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, þar sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans.

10 Ef Kristur er í yður, þá er líkaminn að sönnu dauður vegna syndarinnar, en andinn veitir líf vegna réttlætisins.

11 Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr.

Jóhannesarguðspjall 6:27-40

27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."

28 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað eigum vér að gjöra, svo að vér vinnum verk Guðs?"

29 Jesús svaraði þeim: "Þetta er verk Guðs, að þér trúið á þann, sem hann sendi."

30 Þeir spurðu hann þá: "Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú?

31 Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: ,Brauð af himni gaf hann þeim að eta."`

32 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni.

33 Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf."

34 Þá sögðu þeir við hann: "Herra, gef oss ætíð þetta brauð."

35 Jesús sagði þeim: "Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.

36 En ég hef sagt við yður: Þér hafið séð mig og trúið þó ekki.

37 Allt sem faðirinn gefur mér, mun koma til mín, og þann sem kemur til mín, mun ég alls eigi brott reka.

38 Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.

39 En sá er vilji þess, sem sendi mig, að ég glati engu af öllu því, sem hann hefur gefið mér, heldur reisi það upp á efsta degi.

40 Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society