Book of Common Prayer
97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.
2 Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,
3 eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.
4 Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.
5 Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.
6 Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.
7 Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.
8 Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.
9 Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.
10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.
11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.
12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
2 Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!
3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?
4 Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.
5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,
6 drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa
7 og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."
8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?
9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?
10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?
11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.
12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,
13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.
14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,
15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.
16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?
17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.
18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.
19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.
20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?
21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.
22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.
23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
19 Svo mælti Drottinn við mig: Far og nem staðar í þjóðhliðinu, sem Júdakonungar ganga inn og út um, og í öllum hliðum Jerúsalem,
20 og seg við þá: Heyrið orð Drottins, þér Júdakonungar og allir Júdamenn og allir Jerúsalembúar, þér sem gangið inn um hlið þessi!
21 Svo segir Drottinn: Gætið yðar _ líf yðar liggur við _ og berið eigi byrðar á hvíldardegi, svo að þér komið með þær inn um hlið Jerúsalem.
22 Berið og engar byrðar út úr húsum yðar á hvíldardegi og vinnið ekkert verk, svo að þér haldið hvíldardaginn heilagan, eins og ég hefi boðið feðrum yðar.
23 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur voru harðsvíraðir, svo að þeir hlýddu ekki, né þýddust aga.
24 En ef þér nú hlýðið mér _ segir Drottinn _ svo að þér komið ekki með neinar byrðar inn í hlið þessarar borgar á hvíldardegi, heldur haldið hvíldardaginn heilagan, svo að þér vinnið ekkert verk á honum,
25 þá munu fara inn um hlið þessarar borgar konungar, sem sitja í hásæti Davíðs, akandi í vögnum og ríðandi hestum, þeir og höfðingjar þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar, og borg þessi mun eilíflega byggð verða.
26 Og menn munu koma úr Júdaborgum og úr umhverfi Jerúsalem og úr Benjamínslandi og af láglendinu og úr fjöllunum og úr Suðurlandinu, þeir er færa brennifórn og sláturfórn og matfórn og reykelsi og þeir er færa þakkarfórn í musteri Drottins.
27 En ef þér hlýðið mér eigi, að halda helgan hvíldardaginn og bera enga byrði og ganga eigi inn um hlið Jerúsalem á hvíldardegi, þá mun ég leggja eld í hlið hennar, sem eyða mun höllum Jerúsalem og eigi slökktur verða.
13 Varð þá hið góða mér til dauða? Fjarri fer því! Nei, það var syndin. Til þess að hún birtist sem synd, olli hún mér dauða með því, sem gott er. Þannig skyldi syndin verða yfir sig syndug fyrir boðorðið.
14 Vér vitum, að lögmálið er andlegt, en ég er holdlegur, seldur undir syndina.
15 Því að ég veit ekki, hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég.
16 En ef ég nú gjöri einmitt það, sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott.
17 En nú er það ekki framar ég sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin, sem í mér býr.
18 Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða.
19 Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.
20 En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr.
21 Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast.
22 Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs,
23 en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.
24 Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?
25 Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Svo þjóna ég þá sjálfur lögmáli Guðs með huga mínum, en lögmáli syndarinnar með holdinu.
16 Þegar kvöld var komið, fóru lærisveinar hans niður að vatninu,
17 stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaum. Myrkur var skollið á, og Jesús var ekki enn kominn til þeirra.
18 Vind gerði hvassan, og tók vatnið að æsast.
19 Þegar þeir höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm, sáu þeir Jesú gangandi á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir,
20 en hann sagði við þá: "Það er ég, óttist eigi."
21 Þeir vildu þá taka hann í bátinn, en í sömu svifum rann báturinn að landi, þar sem þeir ætluðu að lenda.
22 Daginn eftir sá fólkið, sem eftir var handan vatnsins, að þar hafði ekki verið nema einn bátur og að Jesús hafði ekki stigið í bátinn með lærisveinum sínum, heldur höfðu þeir farið burt einir saman.
23 Aðrir bátar komu frá Tíberías í nánd við staðinn, þar sem þeir höfðu etið brauðið, þegar Drottinn gjörði þakkir.
24 Nú sáu menn, að Jesús var ekki þarna fremur en lærisveinar hans. Þeir stigu því í bátana og komu til Kapernaum í leit að Jesú.
25 Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: "Rabbí, nær komstu hingað?"
26 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.
27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."
by Icelandic Bible Society