Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 66-67

66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,

syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.

Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.

Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]

Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.

Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.

Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,

14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.

15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.

17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.

18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.

19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.

20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.

67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]

svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.

Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.

Sálmarnir 19

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

Sálmarnir 46

46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.

Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.

Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.

Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.

Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.

Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.

10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.

11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."

12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Jeremía 14:1-9

14 Orð Drottins, sem kom til Jeremía út af þurrkunum.

Júda drúpir, og þeir, sem sitja í borgarhliðum landsins, örmagnast, þeir sitja harmandi á jörðinni, og harmakvein Jerúsalem stígur upp.

Tignarmenni þeirra senda undirmenn sína eftir vatni, þeir koma að vatnsþrónum, en finna ekkert vatn, þeir snúa aftur með tóm ílátin, þeir eru sneyptir og blygðast sín og hylja höfuð sín.

Vegna akurlendisins, sem er agndofa af skelfingu, af því að ekkert regn fellur í landinu, eru akurmennirnir sneypulegir og hylja höfuð sín.

Já, jafnvel hindin í haganum ber og yfirgefur kálfinn, því að gróður er enginn,

og villiasnarnir standa á skóglausu hæðunum og taka öndina á lofti, eins og sjakalarnir. Augu þeirra daprast, því að hvergi er gras.

Þegar misgjörðir vorar vitna í gegn oss, Drottinn, þá lát til þín taka vegna nafns þíns, því að fráhvarfssyndir vorar eru margar, gegn þér höfum vér syndgað.

Ó Ísraels von, hjálpari hans á neyðartíma, hví ert þú sem útlendingur í landinu og sem ferðamaður, er tjaldar til einnar nætur?

Hví ert þú eins og skelkaður maður, eins og hetja, sem ekki megnar að hjálpa? Og þó ert þú mitt á meðal vor, Drottinn, og vér erum nefndir eftir nafni þínu. Yfirgef oss eigi!

Jeremía 14:17-22

17 Þú skalt tala til þeirra þessi orð: Augu mín skulu fljóta í tárum nótt og dag, og tárin eigi stöðvast, því að mærin, dóttir þjóðar minnar, hefir orðið fyrir ógurlegu áfalli, hefir særð verið al-ólæknandi sári.

18 Gangi ég út á völlinn, þá liggja þar þeir, er fallið hafa fyrir sverði, og gangi ég inn í borgina, þá sé ég þar menn dána úr hungri. Já, spámenn og prestar fara um landið og bera ekki kennsl á það.

19 Hefir þú þá hafnað Júda algjörlega, eða ert þú orðinn leiður á Síon? Hví hefir þú lostið oss svo, að vér verðum eigi læknaðir? Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!

20 Vér þekkjum, Drottinn, yfirsjón vora, misgjörð feðra vorra, að vér höfum syndgað gegn þér.

21 Fyrirlít eigi, vegna nafns þíns, _ óvirð eigi hásæti dýrðar þinnar, minnstu sáttmála þíns við oss og rjúf hann eigi.

22 Eru nokkrir regngjafar meðal hinna fánýtu guða heiðingjanna, eða úthellir himinninn skúrum sjálfkrafa? Ert það ekki þú, Drottinn, Guð vor, svo að vér verðum að vona á þig? Því að þú hefir gjört allt þetta.

Bréf Páls til Galatamanna 4:21-5:1

21 Segið mér, þér sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þér ekki hvað lögmálið segir?

22 Ritað er, að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni, en hinn við frjálsu konunni.

23 Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrlegan hátt, en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti.

24 Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar;

25 en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem, því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum.

26 En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor,

27 því að ritað er: Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri en hinnar, sem manninn á.

28 En þér, bræður, eruð fyrirheits börn eins og Ísak.

29 En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann, sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú.

30 En hvað segir ritningin? "Rek burt ambáttina og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar."

31 Þess vegna, bræður, erum vér ekki ambáttar börn, heldur börn frjálsu konunnar.

Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.

Markúsarguðspjall 8:11-21

11 Þangað komu farísear og tóku að þrátta við hann, þeir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.

12 Hann andvarpaði þungan innra með sér og mælti: "Hví heimtar þessi kynslóð tákn? Sannlega segi ég yður: Tákn verður alls ekki gefið þessari kynslóð."

13 Hann skildi síðan við þá, sté aftur í bátinn og fór yfir um.

14 Þeir höfðu gleymt að taka brauð, höfðu ekki nema eitt brauð með sér í bátnum.

15 Jesús áminnti þá og sagði: "Gætið yðar, varist súrdeig farísea og súrdeig Heródesar."

16 En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki brauð.

17 Hann varð þess vís og segir við þá: "Hvað eruð þér að tala um, að þér hafið ekki brauð? Skynjið þér ekki enn né skiljið? Eru hjörtu yðar forhert?

18 Þér hafið augu, sjáið þér ekki? Þér hafið eyru, heyrið þér ekki? Eða munið þér ekki?

19 Þegar ég braut brauðin fimm handa fimm þúsundum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér saman?" Þeir svara honum: "Tólf."

20 "Eða brauðin sjö handa fjórum þúsundunum, hve margar körfur fullar af brauðbitum tókuð þér þá saman?" Þeir svara: "Sjö."

21 Og hann sagði við þá: "Skiljið þér ekki enn?"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society