Book of Common Prayer
87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.
2 Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.
3 Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]
4 Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.
5 En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.
6 Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]
7 Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."
90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.
2 Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
3 Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"
4 Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.
5 Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.
6 Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.
7 Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni.
8 Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.
9 Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp.
10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.
11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?
12 Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.
13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?
14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.
17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.
136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
3 þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
4 honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,
5 honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,
6 honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,
7 honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,
8 sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,
9 tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,
10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,
11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,
12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,
13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,
14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,
15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,
16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,
17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,
19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,
20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,
21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,
22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,
23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,
24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,
25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.
26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.
13 Svo mælti Drottinn við mig: Far og kaup þér línbelti og legg það um lendar þér, en lát það ekki koma í vatn.
2 Og ég keypti beltið eftir orði Drottins og lagði um lendar mér.
3 Og orð Drottins kom til mín annað sinn, svohljóðandi:
4 Tak beltið, sem þú keyptir og um lendar þínar er, og legg af stað og far austur að Efrat og fel það þar í bergskoru.
5 Og ég fór og fal það hjá Efrat, eins og Drottinn hafði boðið mér.
6 En er alllangur tími var um liðinn, sagði Drottinn við mig: Legg af stað og far austur að Efrat og tak þar beltið, sem ég bauð þér að fela þar.
7 Og ég fór austur að Efrat, gróf og tók beltið á þeim stað, sem ég hafði falið það. En sjá, beltið var orðið skemmt, til einskis nýtt framar.
8 Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:
9 Svo segir Drottinn: Þannig vil ég skemma hroka Júda og hroka Jerúsalem, þann hinn mikla.
10 Þessir vondu menn, sem ekki vilja hlýða orðum mínum, sem fara eftir þverúð hjarta síns og elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim _ þeir skulu verða eins og þetta belti, sem til einskis er nýtt framar.
11 Því að eins og beltið fellir sig að lendum manns, eins hafði ég látið allt Ísraels hús og allt Júda hús fella sig að mér _ segir Drottinn _ til þess að það skyldi vera minn lýður og mér til frægðar, lofstírs og prýði, en þeir hlýddu ekki.
12 Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans.
13 Ljáið ekki heldur syndinni limi yðar að ranglætisvopnum, heldur bjóðið sjálfa yður Guði sem lifnaða frá dauðum og limi yðar Guði sem réttlætisvopn.
14 Synd skal ekki drottna yfir yður, því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð.
15 Hvað þá? Eigum vér að syndga, af því að vér erum ekki undir lögmáli, heldur undir náð? Fjarri fer því.
16 Vitið þér ekki, að ef þér bjóðið öðrum sjálfa yður fyrir þjóna og hlýðið honum, þá eruð þér þjónar þess, sem þér hlýðið, hvort heldur er syndar til dauða eða hlýðni til réttlætis?
17 En þökk sé Guði! Þér voruð þjónar syndarinnar, en urðuð af hjarta hlýðnir þeirri kenningu, sem þér voruð á vald gefnir.
18 Og þér gjörðust þjónar réttlætisins eftir að hafa verið leystir frá syndinni.
19 Ég tala á mannlegan hátt, sökum veikleika yðar. Því að eins og þér hafið boðið limi yðar óhreinleikanum og ranglætinu fyrir þjóna til ranglætis, svo skuluð þér nú bjóða limi yðar réttlætinu fyrir þjóna til helgunar.
20 Þegar þér voruð þjónar syndarinnar, þá voruð þér lausir við réttlætið.
21 Hvaða ávöxtu höfðuð þér þá? Þá sem þér nú blygðist yðar fyrir, því að þeir leiða að lokum til dauða.
22 En nú, með því að þér eruð leystir frá syndinni, en eruð orðnir þjónar Guðs, þá hafið þér ávöxt yðar til helgunar og eilíft líf að lokum.
23 Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.
47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði."
48 Gyðingar svöruðu honum: "Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?"
49 Jesús ansaði: "Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig.
50 Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir.
51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja."
52 Þá sögðu Gyðingar við hann: "Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja.
53 Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?"
54 Jesús svaraði: "Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar.
55 Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans.
56 Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist."
57 Nú sögðu Gyðingar við hann: "Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!"
58 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég."
59 Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.
by Icelandic Bible Society