Book of Common Prayer
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.
2 Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.
3 Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,
4 því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.
5 Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.
6 Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.
7 Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.
8 Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]
9 Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,
10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.
11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]
12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?
13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?
14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.
15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?
16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.
17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.
18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.
19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.
91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,
2 sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"
3 Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,
4 hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.
5 Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,
6 drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.
7 Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.
8 Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.
9 Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.
10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.
11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.
13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.
14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.
15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.
16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."
92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
2 að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur
3 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.
4 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.
5 Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.
6 Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.
7 Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,
8 en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.
9 Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.
10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.
11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.
12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.
14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.
15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.
11 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:
2 Heyrið orð þessa sáttmála. Tala þú til Júdamanna og Jerúsalembúa
3 og seg við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Bölvaður sé sá maður, sem ekki hlýðir á orð þessa sáttmála,
4 er ég bauð feðrum yðar að halda, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum og sagði: "Hlýðið skipunum mínum og breytið eftir þeim, með öllu svo sem ég býð yður. Þá skuluð þér vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð,
5 til þess að ég fái haldið þann eið, er ég sór feðrum yðar, að gefa þeim land, sem flýtur í mjólk og hunangi, landið, sem þér eigið enn í dag." Og ég svaraði og sagði: Veri það svo, Drottinn!
6 Þá sagði Drottinn við mig: Boða þú öll þessi orð í Júdaborgum og á Jerúsalemstrætum og seg: Hlýðið á orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim.
7 Því að alvarlega hefi ég varað feður yðar við, þegar ég leiddi þá út af Egyptalandi og allt fram á þennan dag, iðulega og alvarlega, og sagt: "Hlýðið skipun minni!"
8 En þeir hlýddu ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur fóru hver og einn eftir þverúð síns vonda hjarta, og fyrir því lét ég fram á þeim koma öll orð þessa sáttmála, er ég hafði boðið þeim að halda, en þeir héldu ekki.
14 En þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, því að ég mun alls eigi heyra, þegar þeir kalla til mín á ógæfutíma þeirra."
15 Hvert erindi á mín ástkæra í hús mitt? Atferli hennar er lymskufullt. Munu bænahróp og heilagt fórnarkjöt nema illsku þína burt frá þér, svo að þú síðan megir fagna?
16 Fagurgrænt olíutré, prýtt dýrlegum ávöxtum, nefndi Drottinn þig eitt sinn, en í hvínandi ofviðri kveikir hann eld kringum það, og greinar þess brotna.
17 Drottinn allsherjar, sem gróðursetti þig, hefir hótað þér illu vegna illsku Ísraels húss og Júda húss, er þeir frömdu til þess að egna mig til reiði, þá er þeir færðu Baal reykelsisfórnir.
18 Drottinn gjörði mér það kunnugt og ég fékk að vita og sjá gjörðir þeirra.
19 Ég var sjálfur eins og vanið lamb, sem leitt er til slátrunar, og vissi ekki, að þeir voru að brugga ráð gegn mér: "Vér skulum eyða tréð í blóma þess og uppræta hann af landi lifenda, svo að nafns hans verði ekki minnst framar!"
20 En, Drottinn allsherjar, þú er réttlátlega dæmir og rannsakar nýrun og hjartað, lát mig sjá hefnd þína á þeim, því að þér fel ég málefni mitt!
6 Hvað eigum vér þá að segja? Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist?
2 Fjarri fer því. Vér sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni?
3 Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans?
4 Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins.
5 Því að ef vér erum orðnir samgrónir honum í líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það í líkingu upprisu hans.
6 Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni.
7 Því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.
8 Ef vér erum með Kristi dánir, trúum vér því, að vér og munum með honum lifa.
9 Vér vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum.
10 Með dauða sínum dó hann syndinni í eitt skipti fyrir öll, en með lífi sínu lifir hann Guði.
11 Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú.
33 Þeir svöruðu honum: "Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ,Þér munuð verða frjálsir`?"
34 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.
35 En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi.
36 Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir.
37 Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður.
38 Ég tala það, sem ég hef séð hjá föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá föður yðar."
39 Þeir svöruðu honum: "Faðir vor er Abraham." Jesús segir við þá: "Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams.
40 En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei.
41 Þér vinnið verk föður yðar." Þeir sögðu við hann: "Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð."
42 Jesús svaraði: "Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig.
43 Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.
44 Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.
45 En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki.
46 Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki?
47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði."
by Icelandic Bible Society