Book of Common Prayer
82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:
2 "Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]
3 Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,
4 bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."
5 Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.
6 Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,
7 en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."
8 Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.
87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.
2 Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.
3 Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]
4 Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.
5 En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.
6 Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]
7 Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."
7 Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: "Guð þinn er setstur að völdum!"
8 Varðmenn þínir hefja upp raustina allir í einu, þeir æpa fagnaðaróp, því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar.
9 Hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp allar í einu, þér eyðirústir Jerúsalem, því að Drottinn huggar lýð sinn, leysir Jerúsalem.
10 Drottinn hefir beran gjört heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða, og öll endimörk jarðarinnar skulu sjá hjálpræði Guðs vors.
11 Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker Drottins!
12 Því að eigi skuluð þér í flýti brott ganga né fara með skyndingu, því að Drottinn fer fyrir yður í fararbroddi og Guð Ísraels gengur aftastur í flokki yðar.
5 Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um.
6 Einhvers staðar er vitnað: Hvað er maður, að þú minnist hans? Eða mannssonur, að þú vitjir hans?
7 Skamma stund gjörðir þú hann englunum lægri. Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri. Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna.
8 Allt hefur þú lagt undir fætur hans. Með því að leggja allt undir hann, þá hefur hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. Ennþá sjáum vér ekki, að allir hlutir séu undir hann lagðir.
9 En vér sjáum, að Jesús, sem "skamma stund var gjörður englunum lægri," er "krýndur vegsemd og heiðri" vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla.
10 Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.
110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."
2 Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!
3 Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.
4 Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."
5 Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.
6 Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.
7 Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
9 Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.
10 Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.
11 Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.
12 En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.
13 Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.
14 Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.
by Icelandic Bible Society