Book of Common Prayer
8 Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.
2 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
3 Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.
4 Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,
5 hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?
6 Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
7 Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:
8 sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,
9 fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.
10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
3 Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: "Er það satt, að Guð hafi sagt: ,Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum`?"
2 Þá sagði konan við höggorminn: "Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta,
3 en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,` sagði Guð, ,megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja."`
4 Þá sagði höggormurinn við konuna: "Vissulega munuð þið ekki deyja!
5 En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills."
6 En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át.
7 Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur.
8 En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum, þá reyndi maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum.
9 Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: "Hvar ertu?"
10 Hann svaraði: "Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig."
11 En hann mælti: "Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?"
12 Þá svaraði maðurinn: "Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át."
13 Þá sagði Drottinn Guð við konuna: "Hvað hefir þú gjört?" Og konan svaraði: "Höggormurinn tældi mig, svo að ég át."
14 Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: "Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga.
15 Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess."
12 Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.
13 Því að allt fram að lögmálinu var synd í heiminum, en synd tilreiknast ekki meðan ekki er lögmál.
14 Samt sem áður hefur dauðinn ríkt frá Adam til Móse einnig yfir þeim, sem ekki höfðu syndgað á sömu lund og Adam braut, en Adam vísar til hans sem koma átti.
15 En náðargjöfinni og misgjörðinni verður ekki jafnað saman. Því að hafi hinir mörgu dáið sakir þess að einn féll, því fremur hefur náð Guðs og gjöf streymt ríkulega til hinna mörgu í hinum eina manni Jesú Kristi, sem er náðargjöf Guðs.
16 Og ekki verður gjöfinni jafnað til þess, sem leiddi af synd hins eina manns. Því að dómurinn vegna þess, sem hinn eini hafði gjört, varð til sakfellingar, en náðargjöfin vegna misgjörða margra til sýknunar.
17 Ef misgjörð hins eina manns hafði í för með sér, að dauðinn tók völd með þeim eina manni, því fremur munu þá þeir, sem þiggja gnóttir náðarinnar og gjafar réttlætisins, lifa og ríkja vegna hins eina Jesú Krists.
18 Eins og af misgjörð eins leiddi sakfellingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætisverki eins sýknun og líf fyrir alla menn.
19 Eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns, þannig mun hlýðni hins eina réttlæta hina mörgu.
20 En hér við bættist svo lögmálið, til þess að misgjörðin yrði meiri. En þar sem syndin jókst, þar flóði náðin yfir enn meir.
21 Og eins og syndin ríkti í dauðanum, svo skyldi og náðin ríkja fyrir réttlæti til eilífs lífs í Jesú Kristi, Drottni vorum.
by Icelandic Bible Society