Book of Common Prayer
75 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.
3 "Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega.
4 Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]
5 Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!
6 Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"
7 Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,
8 heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn.
9 Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu.
10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði.
11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.
76 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Guð er augljós orðinn í Júda, í Ísrael er nafn hans mikið.
3 Skáli hans er í Salem og bústaður hans á Síon.
4 Þar braut hann sundur leiftur bogans, skjöld og sverð og hervopn. [Sela]
5 Þú birtist dýrlegur, ógurlegri en hin öldnu fjöll.
6 Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi, þeir sofnuðu svefni sínum, og hendurnar brugðust öllum hetjunum.
7 Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð, hnigu bæði vagnar og hestar í dá.
8 Þú ert ógurlegur, og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist?
9 Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan, jörðin skelfdist og kyrrðist,
10 þegar Guð reis upp til dóms til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela]
11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig, leifum reiðinnar gyrðir þú þig.
12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar, allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega,
13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna, sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.
23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?
2 Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.
3 Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.
4 Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.
5 Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.
6 Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.
7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!
8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.
10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.
12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.
13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!
14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
20 Kunngjörið það í húsi Jakobs og boðið það í Júda:
21 Heyr þetta, þú heimski og skilningslausi lýður, þér sem hafið augu, en sjáið ekki, þér sem hafið eyru, en heyrið ekki!
22 Mig viljið þér ekki óttast _ segir Drottinn _ eða skjálfa fyrir mínu augliti? fyrir mér, sem hefi sett hafinu fjörusandinn að takmarki, ævarandi girðingu, sem það kemst ekki yfir. Og þótt öldur þess komi æðandi, þá vinna þær ekki á, og þótt þær gnýi, þá komast þær ekki yfir hana.
23 En lýður þessi er þverúðarfullur og þrjóskur í hjarta. Þeir hafa vikið af leið og horfið burt,
24 en sögðu ekki í hjarta sínu: "Óttumst Drottin, Guð vorn, sem gefur regnið, haustregnið og vorregnið, í réttan tíma og viðheldur handa oss ákveðnum uppskeruvikum."
25 Misgjörðir yðar hafa fært allt þetta úr skorðum, og syndir yðar hafa hrundið blessuninni burt frá yður.
26 Meðal lýðs míns eru óguðlegir menn. Þeir liggja í fyrirsát, eins og þegar fuglarar húka, þeir leggja snörur til þess að veiða menn.
27 Eins og fuglabúr fullt af fuglum, svo eru hús þeirra full af svikum; á þann hátt eru þeir orðnir miklir og auðugir.
28 Þeir eru orðnir feitir, það stirnir á þá. Þeir eru og fleytifullir af illskutali, málefni munaðarleysingjans taka þeir ekki að sér til þess að bera það fram til sigurs, og þeir reka ekki réttar fátæklinganna.
29 Ætti ég ekki að hegna slíkum mönnum? _ segir Drottinn _ eða hefna mín á annarri eins þjóð og þessari?
30 Óttalegt og hryllilegt er það, sem við ber í landinu!
31 Spámennirnir kenna lygar og prestarnir drottna eftir tilsögn þeirra, og þjóð minni þykir fara vel á því. En hvað ætlið þér að gjöra, þegar að skuldadögunum kemur?
19 Vér vitum, að allt sem lögmálið segir, það talar það til þeirra sem eru undir lögmálinu, til þess að sérhver munnur þagni og allur heimurinn verði sekur fyrir Guði,
20 með því að enginn lifandi maður réttlætist fyrir honum af lögmálsverkum. En fyrir lögmál kemur þekking syndar.
21 En nú hefur réttlæti Guðs, sem lögmálið og spámennirnir vitna um, verið opinberað án lögmáls.
22 Það er: Réttlæti Guðs fyrir trú á Jesú Krist öllum þeim til handa, sem trúa. Hér er enginn greinarmunur:
23 Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,
24 og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú.
25 Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt, því að hann hafði í umburðarlyndi sínu umborið hinar áður drýgðu syndir,
26 til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú.
27 Hvar er þá hrósunin? Hún er úti lokuð. Með hvaða lögmáli? Verkanna? Nei, heldur með lögmáli trúar.
28 Vér ályktum því, að maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka.
29 Eða er Guð einungis Guð Gyðinga? Ekki líka heiðingja? Jú, líka heiðingja;
30 svo sannarlega sem Guð er einn, sem mun réttlæta umskorna menn af trú og óumskorna fyrir trúna.
31 Gjörum vér þá lögmálið að engu með trúnni? Fjarri fer því. Vér staðfestum lögmálið.
7 Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans.
2 Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin.
3 Þá sögðu bræður hans við hann: "Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir.
4 Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum."
5 Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann.
6 Jesús sagði við þá: "Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími.
7 Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.
8 Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn."
9 Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu.
10 Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun.
11 Gyðingar voru að leita að honum á hátíðinni og spurðu, hvar hann væri.
12 Manna á meðal var margt um hann talað. Sumir sögðu: "Hann er góður," en aðrir sögðu: "Nei, hann leiðir fjöldann í villu."
13 Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta við Gyðinga.
by Icelandic Bible Society