Book of Common Prayer
55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.
2 Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.
3 Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn
4 sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.
5 Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,
6 ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,
7 svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,
8 já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]
9 Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."
10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.
11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.
12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.
13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,
14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,
15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.
16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.
17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.
18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.
19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.
20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.
21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.
22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.
23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.
24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
7 Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?
8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,
10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"
12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.
20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.
21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?
22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.
23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
18 Fyrir því skuluð þér leggja þessi orð mín á hjarta yðar og huga, og þér skuluð binda þau til merkis á hönd yðar og hafa þau sem minningarbönd á milli augna yðar.
19 Og þér skuluð kenna þau börnum yðar með því að tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.
20 Og þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og á borgarhlið þín,
21 til þess að þér og börn yðar megið lifa í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim, svo lengi sem himinn er yfir jörðu.
22 Ef þér varðveitið kostgæfilega allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir yður að halda: að elska Drottin Guð yðar, að ganga ávallt á hans vegum og halda yður fast við hann, _
23 þá mun Drottinn stökkva burt undan yður öllum þessum þjóðum, og þér munuð leggja undir yður þjóðir, sem eru stærri og voldugri en þér.
24 Hver sá staður, er þér stígið fæti á, skal verða yðar eign. Frá eyðimörkinni allt til Líbanon, frá fljótinu, Efratfljótinu, allt til vesturhafsins skal land yðar ná.
25 Enginn mun standast fyrir yður. Ótta við yður og skelfingu mun Drottinn Guð yðar láta koma yfir hvert það land, er þér stígið fæti á, eins og hann hefir heitið yður.
26 Sjá, ég legg fyrir yður í dag blessun og bölvun:
27 blessunina, ef þér hlýðið skipunum Drottins Guðs yðar, sem ég býð yður í dag,
28 en bölvunina, ef þér hlýðið ekki skipunum Drottins Guðs yðar og víkið af þeim vegi, sem ég býð yður í dag, til þess að elta aðra guði, sem þér eigi hafið þekkt.
5 Svo er um hvern æðsta prest, sem úr flokki manna er tekinn, að hann er settur fyrir menn til þjónustu frammi fyrir Guði, til þess að bera fram gáfur og fórnir fyrir syndir.
2 Hann getur verið mildur við fáfróða og villuráfandi, þar sem hann sjálfur er veikleika vafinn.
3 Og sökum þess á hann að bera fram syndafórn, eigi síður fyrir sjálfan sig en fyrir lýðinn.
4 Enginn tekur sér sjálfum þennan heiður, heldur er hann kallaður af Guði, eins og Aron.
5 Svo var það og um Krist. Ekki tók hann sér sjálfur þá vegsemd að gjörast æðsti prestur. Hann fékk hana af Guði, er hann sagði við hann: Þú ert sonur minn í dag hef ég fætt þig.
6 Og á öðrum stað: Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks.
7 Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.
8 Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið.
9 Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis,
10 af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.
4 Er Jesús varð þess vís, að farísear hefðu heyrt, að hann fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes,
2 _ reyndar skírði Jesús ekki sjálfur, heldur lærisveinar hans _
3 þá hvarf hann brott úr Júdeu og hélt aftur til Galíleu.
4 Hann varð að fara um Samaríu.
5 Nú kemur hann til borgar í Samaríu, er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu, sem Jakob gaf Jósef syni sínum.
6 Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður, og settist hann þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil.
7 Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: "Gef mér að drekka."
8 En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.
9 Þá segir samverska konan við hann: "Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?" [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.]
10 Jesús svaraði henni: "Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir, hver sá er, sem segir við þig: ,Gef mér að drekka,` þá mundir þú biðja hann, og hann gæfi þér lifandi vatn."
11 Hún segir við hann: "Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með, og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn?
12 Ertu meiri en Jakob forfaðir vor, sem gaf oss brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?"
13 Jesús svaraði: "Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta,
14 en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs."
15 Þá segir konan við hann: "Herra, gef mér þetta vatn, svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa."
16 Hann segir við hana: "Farðu, kallaðu á manninn þinn, og komdu hingað."
17 Konan svaraði: "Ég á engan mann." Jesús segir við hana: "Rétt er það, að þú eigir engan mann,
18 því þú hefur átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt."
19 Konan segir við hann: "Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður.
20 Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli."
21 Jesús segir við hana: "Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.
22 Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum.
23 En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann.
24 Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika."
25 Konan segir við hann: "Ég veit, að Messías kemur _ það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt."
26 Jesús segir við hana: "Ég er hann, ég sem við þig tala."
by Icelandic Bible Society