Book of Common Prayer
49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.
50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.
51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.
52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.
53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.
54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.
55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.
56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.
57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.
58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.
59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.
60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.
61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.
62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.
63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.
64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.
65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.
66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.
67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.
68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.
69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.
70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.
71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.
72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.
49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.
2 Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,
3 bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!
4 Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.
5 Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.
6 Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,
7 þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.
8 Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.
9 Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,
10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.
11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.
12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.
13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.
14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]
15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.
16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]
17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,
18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.
19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."
20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.
21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.
53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.
2 Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
3 Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
4 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.
5 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?
6 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.
13 Og hann sagði við mig: "Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk.
14 Lát mig í friði, svo að ég geti gjöreytt þeim og afmáð nöfn þeirra undir himninum, og ég mun gjöra þig að sterkari og fjölmennari þjóð en þessi er."
15 Þá sneri ég á leið og gekk ofan af fjallinu, en fjallið stóð í björtu báli, og hélt ég á báðum sáttmálstöflunum í höndunum.
16 Og ég leit til, og sjá: Þér höfðuð syndgað móti Drottni, Guði yðar, þér höfðuð gjört yður steyptan kálf og höfðuð þannig skjótt vikið af þeim vegi, sem Drottinn hafði boðið yður.
17 Þá þreif ég báðar töflurnar og þeytti þeim af báðum höndum og braut þær í sundur fyrir augunum á yður.
18 Og ég varp mér niður fyrir augliti Drottins, eins og hið fyrra sinnið, fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og át ekki brauð og drakk ekki vatn, vegna allra yðar synda, sem þér höfðuð drýgt með því að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, svo að þér egnduð hann til reiði.
19 Því að ég var hræddur við þá reiði og heift, sem Drottinn bar til yðar, að hann ætlaði að tortíma yður. Og Drottinn bænheyrði mig einnig í þetta sinn.
20 Drottinn reiddist einnig mjög Aroni, svo að hann ætlaði að tortíma honum, en ég bað og fyrir Aroni í það sama sinn.
21 En synd yðar, kálfinn, sem þér höfðuð gjört, tók ég og brenndi í eldi og muldi hann vandlega í smátt, uns hann varð að fínu dufti, og duftinu kastaði ég í lækinn, sem rann þar ofan af fjallinu.
12 Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.
13 Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir "í dag", til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.
14 Því að vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi.
15 Sagt er: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni" _
16 Hverjir voru þá þeir, sem heyrt höfðu og gjörðu þó uppreisn? Voru það ekki einmitt allir þeir, sem út höfðu farið af Egyptalandi fyrir tilstilli Móse?
17 Og hverjum "var hann gramur í fjörutíu ár"? Var það ekki þeim, sem syndgað höfðu og báru beinin á eyðimörkinni?
18 Og hverjum "sór hann, að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans," nema hinum óhlýðnu?
19 Vér sjáum, að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.
23 Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans, því þeir sáu þau tákn, sem hann gjörði.
24 En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn, því hann þekkti alla.
25 Hann þurfti þess ekki, að neinn bæri öðrum manni vitni; hann vissi sjálfur, hvað í manni býr.
3 Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga.
2 Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: "Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum."
3 Jesús svaraði honum: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju."
4 Nikódemus segir við hann: "Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?"
5 Jesús svaraði: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.
6 Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.
7 Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju.
8 Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur."
9 Þá spurði Nikódemus: "Hvernig má þetta verða?"
10 Jesús svaraði honum: "Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta?
11 Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum.
12 Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku?
13 Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.
14 Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn,
15 svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum.
by Icelandic Bible Society