Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 37

37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,

því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,

þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.

Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.

10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.

11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.

12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.

13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.

14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.

15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.

16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,

17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.

18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.

19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.

20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.

21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.

22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.

23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans.

24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans.

25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.

26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.

27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur,

28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast.

29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.

30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er.

31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.

32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann,

33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.

34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.

35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,

36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki.

37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,

38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.

39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.

40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.

Fimmta bók Móse 7:6-11

Því að þú ert Drottni Guði þínum helgaður lýður. Þig hefir Drottinn Guð þinn kjörið til að vera eignarlýður hans um fram allar þjóðir, sem eru á yfirborði jarðarinnar.

Ekki var það fyrir þá sök, að þér væruð fjölmennari en allar aðrar þjóðir, að Drottinn lagði ást á yður og kjöri yður, því að þér eruð allra þjóða minnstir.

En sökum þess að Drottinn elskar yður og af því að hann vildi halda eiðinn, sem hann sór feðrum yðar, þá leiddi hann yður burt með sterkri hendi og leysti þig úr þrælahúsinu, undan valdi Faraós, Egyptalandskonungs.

Fyrir því skalt þú vita, að Drottinn Guð þinn er hinn sanni Guð, hinn trúfasti Guð, er heldur sáttmálann og miskunnsemina í þúsund ættliði við þá, sem elska hann og varðveita boðorð hans.

10 En þeim, sem hann hata, geldur hann líka hverjum og einum sjálfum með því að láta þá farast. Hann dregur það eigi fyrir þeim, sem hata hann; hverjum og einum geldur hann þeim sjálfum.

11 Fyrir því skalt þú varðveita skipanir þær, lög og ákvæði, sem ég legg fyrir þig í dag, svo að þú breytir eftir þeim.

Bréf Páls til Títusar 1

Frá Páli, þjóni Guðs, en postula Jesú Krists til að efla trú Guðs útvöldu og þekkingu á sannleikanum, sem leiðir til guðhræðslu

í von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum,

en opinberað á settum tíma. Þetta orð hans var mér trúað fyrir að prédika eftir skipun Guðs, frelsara vors.

Til Títusar, skilgetins sonar míns í sameiginlegri trú. Náð og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, frelsara vorum.

Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig.

Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni.

Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs. Hann á ekki að vera sjálfbirgingur, ekki bráður, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða.

Hann sé gestrisinn, góðgjarn, hóglátur, réttlátur, heilagur og hafi stjórn á sjálfum sér.

Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.

10 Því að margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu, allra helst eru það þeir sem halda fram umskurn,

11 og verður að þagga niður í þeim. Það eru mennirnir, sem kollvarpa heilum heimilum, er þeir kenna það, sem eigi á að kenna, fyrir svívirðilegs gróða sakir.

12 Einhver af þeim, eigin spámaður þeirra, hefur svo að orði komist: "Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar."

13 Þessi vitnisburður er sannur. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir verði heilbrigðir í trúnni,

14 og gefi sig ekki að gyðingaævintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum.

15 Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.

16 Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.

Jóhannesarguðspjall 1:29-34

29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: "Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.

30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.`

31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael."

32 Og Jóhannes vitnaði: "Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.

33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.`

34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society