Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 26

26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.

Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.

Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.

Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.

Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.

Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,

til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.

Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,

10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.

11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.

12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.

Sálmarnir 28

28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.

Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.

Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.

Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.

Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.

Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.

Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.

Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.

Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.

Sálmarnir 36

36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.

Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.

Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.

Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.

Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.

Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.

Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.

Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.

10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.

11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.

12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.

13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.

Sálmarnir 39

39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.

Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."

Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.

Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:

"Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.

Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."

Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.

Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.

10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.

11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.

12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.

14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.

Fimmta bók Móse 6:16-25

16 Eigi skuluð þér freista Drottins Guðs yðar, eins og þér freistuðuð hans í Massa.

17 Varðveitið kostgæfilega skipanir Drottins Guðs yðar og fyrirmæli hans og lög, þau er hann hefir fyrir þig lagt.

18 Þú skalt gjöra það, sem rétt er og gott í augum Drottins, svo að þér vegni vel og þú komist inn í og fáir til eignar landið góða, sem Drottinn sór feðrum þínum,

19 með því að hann stökkvir burt öllum óvinum þínum undan þér, eins og Drottinn hefir heitið.

20 Þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: "Hvað eiga fyrirmælin, lögin og ákvæðin að þýða, sem Drottinn Guð vor hefir fyrir yður lagt?"

21 þá skalt þú segja við son þinn: "Vér vorum þrælar Faraós í Egyptalandi, en Drottinn leiddi oss af Egyptalandi með sterkri hendi.

22 Og hann gjörði mikil og skæð tákn og undur á hendur Egyptalandi, Faraó og öllu húsi hans að oss ásjáandi.

23 Og hann leiddi oss út þaðan til þess að fara með oss hingað og gefa oss landið, sem hann sór feðrum vorum.

24 Og hann bauð oss að halda öll þessi lög með því að óttast Drottin Guð vorn, svo að oss mætti vegna vel alla daga og hann halda oss á lífi, eins og allt til þessa.

25 Og vér munum taldir verða réttlátir, ef vér gætum þess að breyta eftir öllum þessum skipunum fyrir augliti Drottins Guðs vors, eins og hann hefir boðið oss."

Bréfið til Hebrea 2:1-10

Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.

Því að hafi orðið af englum talað reynst stöðugt og hvert afbrot og óhlýðni hlotið réttlátt endurgjald,

hvernig fáum vér þá undan komist, ef vér vanrækjum slíkt hjálpræði sem Drottinn flutti fyrst og var staðfest fyrir oss af þeim, er heyrðu?

Guð bar jafnframt vitni með þeim með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og gjöfum heilags anda, sem hann útbýtti að vild sinni.

Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um.

Einhvers staðar er vitnað: Hvað er maður, að þú minnist hans? Eða mannssonur, að þú vitjir hans?

Skamma stund gjörðir þú hann englunum lægri. Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri. Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna.

Allt hefur þú lagt undir fætur hans. Með því að leggja allt undir hann, þá hefur hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. Ennþá sjáum vér ekki, að allir hlutir séu undir hann lagðir.

En vér sjáum, að Jesús, sem "skamma stund var gjörður englunum lægri," er "krýndur vegsemd og heiðri" vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla.

10 Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.

Jóhannesarguðspjall 1:19-28

19 Þessi er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að spyrja hann: "Hver ert þú?"

20 Hann svaraði ótvírætt og játaði: "Ekki er ég Kristur."

21 Þeir spurðu hann: "Hvað þá? Ertu Elía?" Hann svarar: "Ekki er ég hann." "Ertu spámaðurinn?" Hann kvað nei við.

22 Þá sögðu þeir við hann: "Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?"

23 Hann sagði: "Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir."

24 Sendir voru menn af flokki farísea.

25 Þeir spurðu hann: "Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?"

26 Jóhannes svaraði: "Ég skíri með vatni. Mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki,

27 hann, sem kemur eftir mig, og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa."

28 Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society