Book of Common Prayer
140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,
3 þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.
4 Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]
5 Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.
6 Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]
7 Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.
8 Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.
9 Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]
10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.
11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.
12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.
13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.
14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.
142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.
2 Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.
3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.
4 Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.
5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.
6 Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.
7 Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.
8 Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.
141 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.
2 Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.
3 Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.
4 Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.
5 Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.
6 Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.
7 Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.
8 Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.
9 Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.
10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.
143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.
2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.
3 Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.
4 Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.
5 Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.
6 Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]
7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.
8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.
9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.
10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.
11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.
12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.
3 Naomí, tengdamóðir Rutar, sagði við hana: "Dóttir mín, á ég ekki að útvega þér athvarf, til þess að þér vegni vel?
2 Þú hefir verið með stúlkunum hans Bóasar, en hann er frændi okkar. Sjá, hann varpar í nótt bygginu í láfa sínum.
3 Þvo þér nú og smyr þig og far í önnur föt og gakk ofan í láfann, en láttu ekki manninn verða varan við þig fyrr en hann hefir etið og drukkið.
4 En þegar hann leggst til hvíldar, þá taktu eftir, hvar hann leggst niður, og gakk þú þangað og flettu upp ábreiðunni til fóta honum og leggst þar niður. Hann mun þá segja þér, hvað þú átt að gjöra."
5 Og hún svaraði henni: "Ég vil gjöra allt, sem þú segir."
6 Síðan gekk hún ofan í láfann og gjörði allt svo sem tengdamóðir hennar hafði fyrir hana lagt.
7 Er Bóas hafði etið og drukkið og var í góðu skapi, þá fór hann og lagðist til hvíldar við endann á kornbingnum. Þá kom hún hljóðlega, fletti upp ábreiðunni til fóta honum og lagðist niður.
8 En um miðnætti varð manninum bilt við, og er hann settist upp, sjá, þá lá kona til fóta honum.
9 Og hann sagði: "Hver ert þú?" Hún svaraði: "Ég er Rut ambátt þín. Breið þú væng þinn yfir ambátt þína, því að þú ert lausnarmaður."
10 Þá sagði hann: "Blessuð sért þú af Drottni, dóttir mín! Þú hefir nú síðast sýnt elsku þína enn betur en áður, með því að elta ekki ungu mennina, hvorki fátækan né ríkan.
11 Og ver þú nú óhrædd, dóttir mín. Að öllu, svo sem þú segir, mun ég við þig gjöra, því að allir samborgarmenn mínir vita, að þú ert væn kona.
12 Nú er það að vísu satt, að ég er lausnarmaður, en þó er til annar lausnarmaður, sem er nákomnari en ég.
13 Vertu hér í nótt, en á morgun, ef hann þá vill leysa þig, gott og vel, þá gjöri hann það, en vilji hann ekki leysa þig, þá mun ég leysa þig, svo sannarlega sem Drottinn lifir. Liggðu nú kyrr til morguns."
14 Hún lá til fóta honum til morguns. Þá stóð hún upp, áður en menn gátu þekkt hvor annan. Því að hann hugsaði: "Það má eigi spyrjast, að konan hafi komið í láfann."
15 Og hann sagði: "Kom þú með möttulinn, sem þú ert í, og haltu honum út." Og hún hélt honum út. Þá mældi hann sex mæla byggs og lyfti á hana. Síðan fór hún inn í borgina.
16 Er Rut kom til tengdamóður sinnar, mælti hún: "Hvernig gekk þér, dóttir mín?" Þá sagði hún henni frá öllu því, er maðurinn hafði við hana gjört.
17 Og hún sagði: "Þessa sex mæla byggs gaf hann mér, því að hann sagði: ,Þú mátt ekki fara heim til tengdamóður þinnar með tvær hendur tómar."`
18 Þá sagði Naomí: "Ver þú nú kyrr, dóttir mín, uns þú fréttir, hvernig málum lýkur, því að maðurinn mun ekki hætta fyrr en hann leiðir þetta mál til lykta í dag."
4 Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast.
2 Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.
3 En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast.
4 Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.
5 Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.
6 Því að Guð, sem sagði: "Ljós skal skína fram úr myrkri!" _ hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.
7 En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.
8 Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki,
9 ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.
10 Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum.
11 Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru.
12 Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður.
38 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.`
39 En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.
40 Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka.
41 Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær.
42 Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér.
43 Þér hafið heyrt, að sagt var: ,Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.`
44 En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður,
45 svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.
46 Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama?
47 Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?
48 Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.
by Icelandic Bible Society