Book of Common Prayer
106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?
3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.
4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,
5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.
6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.
7 Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.
8 Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.
9 Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.
10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.
11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.
12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.
13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.
14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum.
15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð.
16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins.
17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams,
18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu.
19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,
20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.
21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,
22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.
23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.
24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans.
25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins.
26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni,
27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin.
28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða.
29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra.
30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan.
31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu.
32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,
33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.
34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim,
35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra.
36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru,
37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum
38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.
39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.
40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.
41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.
42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.
43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.
44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.
45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar
46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.
47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.
48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.
1 Í þá daga, er dómararnir stjórnuðu, bar svo til, að hallæri var í landinu. Fór þá maður nokkur frá Betlehem í Júda til þess að dveljast sem útlendingur í Móabslandi ásamt konu sinni og tveimur sonum sínum.
2 Þessi maður hét Elímelek og kona hans Naomí, en synir hans tveir Mahlón og Kiljón. Þau voru af Efrataætt frá Betlehem í Júda. Þau komu til Móabslands og dvöldust þar.
3 Þá dó Elímelek, maður Naomí, en hún lifði eftir með báðum sonum sínum.
4 Þeir gengu að eiga móabítískar konur, og hét önnur Orpa, en hin Rut. Og þeir bjuggu þar hér um bil tíu ár.
5 Þá dóu þeir líka báðir, Mahlón og Kiljón, og konan lifði ein eftir báða sonu sína og mann sinn.
6 Þá bjóst Naomí til að hverfa aftur heim frá Móabslandi með tengdadætrum sínum, því að hún hafði heyrt í Móabslandi, að Drottinn hefði vitjað lýðs síns og gefið þeim brauð.
7 Lagði hún nú af stað þaðan, er hún hafði verið, og báðar tengdadætur hennar með henni. En er þær voru farnar á leið til þess að hverfa aftur til Júdalands,
8 þá sagði Naomí við báðar tengdadætur sínar: "Farið, snúið við, hvor um sig til húss móður sinnar. Drottinn auðsýni ykkur gæsku, eins og þið hafið auðsýnt hinum látnu og mér.
9 Drottinn gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns." Síðan kyssti hún þær. En þær tóku að gráta hástöfum
10 og sögðu við hana: "Nei, við viljum hverfa aftur með þér til þíns fólks!"
11 Naomí svaraði: "Hverfið aftur, dætur mínar! Hví viljið þið fara með mér? Mun ég enn bera sonu í skauti mínu, er verða megi menn ykkar?
12 Hverfið aftur, dætur mínar, farið heim, því að ég er orðin of gömul til að giftast aftur. En setjum nú svo, að ég hugsaði: ,Ég hefi enn von,` og að ég giftist meira að segja í kveld og fæddi einnig sonu, ættuð þið fyrir þá sök að bíða, til þess er þeir yrðu fulltíða?
13 Ættuð þið fyrir þá sök að loka ykkur inni og ekki giftast? Nei, dætur mínar, mig tekur mjög sárt til ykkar, því að hönd Drottins hefir lagst þungt á mig."
14 Þá tóku þær enn að gráta hástöfum. Og Orpa kvaddi tengdamóður sína með kossi, en Rut gat ekki slitið sig frá henni.
1 Páll, að Guðs vilja postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir vor, heilsa söfnuði Guðs, sem er í Korintu, ásamt öllum heilögum, í gjörvallri Akkeu.
2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar,
4 sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.
5 Því að eins og þjáningar Krists koma í ríkum mæli yfir oss, þannig hljótum vér og huggun í ríkum mæli fyrir Krist.
6 En ef vér sætum þrengingum, þá er það yður til huggunar og hjálpræðis, og ef vér hljótum huggun, þá er það til þess að þér hljótið huggun og kraft til að standast þær þjáningar, sem vér einnig líðum.
7 Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.
8 Vér viljum ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu. Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið.
9 Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm. Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu.
10 Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann oss og mun frelsa oss. Til hans höfum vér sett von vora, að hann muni enn frelsa oss.
11 Til þess getið þér og hjálpað með því að biðja fyrir oss. Þá munu margir þakka þá náðargjöf, sem oss er veitt að fyrirbæn margra.
5 Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans.
2 Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði:
3 "Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.
4 Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.
5 Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.
6 Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.
7 Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.
8 Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.
9 Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
10 Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.
11 Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.
12 Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.
by Icelandic Bible Society