Book of Common Prayer
102 Bæn hrjáðs manns, þá er hann örmagnast og úthellir kveini sínu fyrir Drottni.
2 Drottinn, heyr þú bæn mína og hróp mitt berist til þín.
3 Byrg eigi auglit þitt fyrir mér, þegar ég er í nauðum staddur, hneig að mér eyra þitt, þegar ég kalla, flýt þér að bænheyra mig.
4 Því að dagar mínir hverfa sem reykur, bein mín brenna sem eldur.
5 Hjarta mitt er mornað og þornað sem gras, því að ég gleymi að neyta brauðs míns.
6 Sakir kveinstafa minna er ég sem skinin bein.
7 Ég líkist pelíkan í eyðimörkinni, er sem ugla í rústum.
8 Ég ligg andvaka og styn eins og einmana fugl á þaki.
9 Daginn langan smána óvinir mínir mig, fjandmenn mínir formæla með nafni mínu.
10 Ég et ösku sem brauð og blanda drykk minn tárum
11 sakir reiði þinnar og bræði, af því að þú hefir tekið mig upp og varpað mér burt.
12 Dagar mínir eru sem hallur skuggi, og ég visna sem gras.
13 En þú, Drottinn, ríkir að eilífu, og nafn þitt varir frá kyni til kyns.
14 Þú munt rísa upp til þess að miskunna Síon, því að tími er kominn til þess að líkna henni, já, stundin er komin.
15 Þjónar þínir elska steina hennar og harma yfir öskuhrúgum hennar.
16 Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins og allir konungar jarðarinnar dýrð þína,
17 því að Drottinn byggir upp Síon og birtist í dýrð sinni.
18 Hann snýr sér að bæn hinna nöktu og fyrirlítur eigi bæn þeirra.
19 Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð, og þjóð, sem enn er ósköpuð, skal lofa Drottin.
20 Því að Drottinn lítur niður af sínum helgu hæðum, horfir frá himni til jarðar
21 til þess að heyra andvarpanir bandingjanna og leysa börn dauðans,
22 að þau mættu kunngjöra nafn Drottins í Síon og lofstír hans í Jerúsalem,
23 þegar þjóðirnar safnast saman og konungsríkin til þess að þjóna Drottni.
24 Hann hefir bugað kraft minn á ferð minni, stytt daga mína.
25 Ég segi: Guð minn, tak mig eigi burt á miðri ævinni. Ár þín vara frá kyni til kyns.
26 Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
27 Þeir líða undir lok, en þú varir. Þeir fyrnast sem fat, þú skiptir þeim sem klæðum, og þeir hverfa.
28 En þú ert hinn sami, og þín ár fá engan enda.
29 Synir þjóna þinna munu búa kyrrir og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.
107 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja, þeir er hann hefir leyst úr nauðum
3 og safnað saman úr löndunum, frá austri og vestri, frá norðri og suðri.
4 Þeir reikuðu um eyðimörkina, um veglaus öræfin, og fundu eigi byggilegar borgir,
5 þá hungraði og þyrsti, sál þeirra vanmegnaðist í þeim.
6 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann bjargaði þeim úr angist þeirra
7 og leiddi þá um slétta leið, svo að þeir komust til byggilegrar borgar.
8 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
9 því að hann mettaði magnþrota sál og fyllti hungraða sál gæðum.
10 Þeir sem sátu í myrkri og niðdimmu, bundnir eymd og járnum,
11 af því að þeir höfðu þrjóskast við orðum Guðs og fyrirlitið ráð Hins hæsta,
12 svo að hann beygði hug þeirra með mæðu, þeir hrösuðu, og enginn liðsinnti þeim.
13 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,
14 hann leiddi þá út úr myrkrinu og niðdimmunni og braut sundur fjötra þeirra.
15 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
16 því að hann braut eirhliðin og mölvaði járnslárnar.
17 Heimskingjar, er vegna sinnar syndsamlegu breytni og vegna misgjörða sinna voru þjáðir,
18 þeim bauð við hverri fæðu og voru komnir nálægt hliðum dauðans.
19 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, hann frelsaði þá úr angist þeirra,
20 hann sendi út orð sitt og læknaði þá og bjargaði þeim frá gröfinni.
21 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
22 og færa þakkarfórnir og kunngjöra verk hans með fögnuði.
23 Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum,
24 þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu.
25 Því að hann bauð og þá kom stormviðri, sem hóf upp bylgjur þess.
26 Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið, þeim féllst hugur í neyðinni.
27 Þeir römbuðu og skjögruðu eins og drukkinn maður, og öll kunnátta þeirra var þrotin.
28 Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni, og hann leiddi þá úr angist þeirra.
29 Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.
30 Þá glöddust þeir, af því að þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu.
31 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn,
32 vegsama hann á þjóðarsamkomunni og lofa hann í hóp öldunganna.
17 Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð, og hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.
18 Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa, því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.
19 Ég vil fagna yfir Jerúsalem og gleðjast yfir fólki mínu, og eigi skal framar heyrast þar gráthljóð eða kveinstafir.
20 Eigi skal þar framar vera nokkurt ungbarn, er aðeins lifi fáa daga, né nokkurt gamalmenni, sem ekki nái fullum aldri, því að sá er þar ungur maður, sem deyr tíræður, og sá sem ekki nær tíræðisaldri skal álítast einskis verður.
21 Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra.
22 Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna.
23 Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er Drottinn hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.
24 Áður en þeir kalla, mun ég svara, og áður en þeir hafa orðinu sleppt, mun ég bænheyra.
25 Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut, en moldin skal vera fæða höggormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra _ segir Drottinn.
17 Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.
18 Því að ritningin segir: "Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir" og "verður er verkamaðurinn launa sinna."
19 Tak þú ekki við kæru gegn öldungi, nema tveir eða þrír vottar beri.
20 Ávíta brotlega í viðurvist allra, til þess að hinir megi hafa ótta.
21 Ég heiti á þig fyrir augliti Guðs og Krists Jesú og hinna útvöldu engla, að þú gætir þessa án nokkurs fordóms og gjörir ekkert af vilfylgi.
22 Eigi skalt þú fljótráðið leggja hendur yfir nokkurn mann. Tak eigi heldur þátt í annarra syndum, varðveit sjálfan þig hreinan.
23 Ver þú ekki lengur að drekka vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð.
24 Syndirnar hjá sumum mönnum eru í augum uppi og eru komnar á undan, þegar dæma skal. En hjá sumum koma þær líka á eftir.
25 Á sama hátt eru góðverkin augljós, og þau, sem eru það ekki, munu ekki geta dulist.
28 Þá kom til hans fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann, að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: "Hvert er æðst allra boðorða?"
29 Jesús svaraði: "Æðst er þetta: ,Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn.
30 Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.`
31 Annað er þetta: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.` Ekkert boðorð annað er þessum meira."
32 Fræðimaðurinn sagði þá við hann: "Rétt er það, meistari, satt sagðir þú, að einn er hann og enginn er annar en hann.
33 Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira."
34 Jesús sá, að hann svaraði viturlega, og sagði við hann: "Þú ert ekki fjarri Guðs ríki." Og enginn þorði framar að spyrja hann.
by Icelandic Bible Society