Book of Common Prayer
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.
12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,
13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.
14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.
15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."
16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,
17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.
18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,
19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.
20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.
21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,
22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.
24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,
27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.
28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,
29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,
30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,
31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,
32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,
33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,
34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,
35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,
36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.
38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.
40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.
42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
65 Ég var fús að veita þeim áheyrn, sem eigi spurðu eftir mér, ég gaf þeim kost á að finna mig, sem eigi leituðu mín. Ég sagði: "Hér er ég, hér er ég," við þá þjóð, er eigi ákallaði nafn mitt.
2 Ég hefi rétt út hendur mínar allan daginn í móti þrjóskum lýð, í móti þeim, sem ganga á illum vegum, eftir eigin hugþótta sínum,
3 í móti fólki, sem reitir mig stöðuglega til reiði upp í opin augun, sem fórnar í lundunum og brennir reykelsi á tigulsteinunum,
4 sem lætur fyrirberast í gröfunum og er um nætur í hellunum, etur svínakjöt og hefir viðbjóðslega súpu í ílátum sínum,
5 sem segir: "Far þú burt, kom ekki nærri mér, ég er þér heilagur!" _ Slíkir menn eru reykur í nösum mér, eldur, sem brennur liðlangan daginn.
6 Sjá, það stendur skrifað frammi fyrir mér: Ég mun ekki þagna fyrr en ég hefi goldið, já, ég mun gjalda þeim í skaut,
7 bæði fyrir misgjörðir þeirra og fyrir misgjörðir feðra þeirra _ segir Drottinn. Þeir brenndu reykelsi á fjöllunum og smánuðu mig á hæðunum! Ég vil mæla þeim í skaut laun þeirra.
8 Svo segir Drottinn: Eins og menn segja, þegar lögur finnst í vínberi: "Ónýt það eigi, því að blessun er í því!" eins vil ég gjöra fyrir sakir þjóna minna, svo að ég tortími þeim ekki öllum.
9 Ég vil láta afsprengi æxlast út af Jakob og út af Júda erfingja að fjöllum mínum. Mínir útvöldu skulu erfa þau og þjónar mínir búa þar.
10 Saron skal verða að beitilandi fyrir hjarðir og Akordalur að nautastöðli fyrir þá af þjóð minni, sem leita mín.
11 En þér, sem yfirgefið Drottin, sem gleymið mínu heilaga fjalli, sem setjið borð fyrir heilladísina og hellið á kryddvíni fyrir örlaganornina,
12 yður ætla ég undir sverðið, og allir skuluð þér leggjast niður til slátrunar, af því að þér gegnduð ekki, þegar ég kallaði, og heyrðuð ekki, þegar ég talaði, heldur aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðuð mætur á því, sem mér mislíkaði.
4 Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.
2 Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.
3 Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.
4 Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð.
5 Það helgast af orði Guðs og bæn.
6 Með því að brýna þetta fyrir bræðrunum, munt þú verða góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningarinnar, sem þú hefur fylgt.
7 En hafna þú vanheilögum kerlingaævintýrum, og æf sjálfan þig í guðhræðslu.
8 Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.
9 Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið.
10 Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra.
11 Bjóð þú þetta og kenn það.
12 Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.
13 Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.
14 Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna.
15 Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.
16 Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.
13 Þá sendu þeir til hans nokkra farísea og Heródesarsinna, og skyldu þeir veiða hann í orðum.
14 Þeir koma og segja við hann: "Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika. Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki? Eigum vér að gjalda eða ekki gjalda?"
15 En hann sá hræsni þeirra og sagði við þá: "Hví freistið þér mín? Fáið mér denar, látið mig sjá."
16 Þeir fengu honum pening. Hann spyr: "Hvers mynd og yfirskrift er þetta?" Þeir svöruðu: "Keisarans."
17 En Jesús sagði við þá: "Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er." Og þá furðaði stórlega á honum.
18 Saddúkear komu til hans, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:
19 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, ,að deyi maður barnlaus, en láti eftir sig konu, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.`
20 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu, en dó barnlaus.
21 Annar bróðirinn gekk að eiga hana og dó barnlaus. Eins hinn þriðji,
22 og allir sjö urðu barnlausir. Síðast allra dó konan.
23 Í upprisunni, þegar menn rísa upp, kona hvers þeirra verður hún þá? Allir sjö höfðu átt hana."
24 Jesús svaraði þeim: "Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs?
25 Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum.
26 En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`
27 Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega."
by Icelandic Bible Society