Book of Common Prayer
89 Etans-maskíl Esraíta.
2 Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,
3 því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.
4 Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:
5 "Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]
6 Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.
7 Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?
8 Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.
10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.
11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.
12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.
13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.
14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.
15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.
16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.
17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,
18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,
19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.
20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.
21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.
22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.
23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,
24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.
25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.
26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.
27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.
28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.
29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.
30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.
31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,
32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,
33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,
34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.
35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.
36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:
37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.
38 Það skal standa stöðugt að eilífu sem tunglið, svo sannarlega sem áreiðanlegt vitni er á himnum." [Sela]
39 Og þó hefir þú útskúfað og hafnað og reiðst þínum smurða.
40 Þú hefir riftað sáttmálanum við þjón þinn, vanhelgað kórónu hans og fleygt henni til jarðar.
41 Þú hefir brotið niður alla múrveggi hans og lagt virki hans í eyði.
42 Allir vegfarendur ræna hann, hann er til háðungar orðinn nágrönnum sínum.
43 Þú hefir hafið hægri hönd fjenda hans, glatt alla óvini hans.
44 Þú hefir og látið sverðseggjar hans hörfa undan og eigi látið hann standast í bardaganum.
45 Þú hefir látið endi á verða vegsemd hans og hrundið hásæti hans til jarðar.
46 Þú hefir stytt æskudaga hans og hulið hann skömm. [Sela]
47 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að dyljast, á reiði þín ætíð að brenna sem eldur?
48 Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er, til hvílíks hégóma þú hefir skapað öll mannanna börn.
49 Hver er sá, er lifi og sjái eigi dauðann, sá er bjargi sálu sinni úr greipum Heljar. [Sela]
50 Hvar eru þín fyrri náðarverk, ó Drottinn, þau er þú í trúfesti þinni sórst Davíð?
51 Minnst, ó Drottinn, háðungar þjóna þinna, að ég verð að bera í skauti smánan margra þjóða,
52 er óvinir þínir, Drottinn, smána mig með, smána fótspor þíns smurða. _________
53 Lofaður sé Drottinn að eilífu. Amen. Amen.
63 Hver er þessi, sem kemur frá Edóm, í hárauðum klæðum frá Bosra? Þessi hinn tigulega búni, sem gengur fram hnarreistur í mikilleik máttar síns? _ Það er ég, sá er mæli réttlæti og mátt hefi til að frelsa.
2 Hví er rauð skikkja þín, og klæði þín eins og þess, er treður ber í vínþröng?
3 _ Vínlagarþró hefi ég troðið, aleinn, af þjóðunum hjálpaði mér enginn. Ég fótum tróð þá í reiði minni, marði þá sundur í heift minni. Þá hraut lögur þeirra á klæði mín, og skikkju mína ataði ég alla.
4 Hefndardagur var mér í hug, og lausnarár mitt er komið.
5 Ég litaðist um, en enginn var til að hjálpa, mig undraði, að enginn skyldi aðstoða mig. En þá hjálpaði mér armleggur minn, og heift mín aðstoðaði mig.
6 Ég tróð þjóðirnar í reiði minni og marði þær sundur í heift minni og lét löginn úr þeim renna á jörðina.
1 Páll, postuli Krists Jesú, að boði Guðs frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, heilsar
2 Tímóteusi, skilgetnum syni sínum í trúnni. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.
3 Þegar ég var á förum til Makedóníu, hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða sumum mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar
4 og gefa sig ekki að ævintýrum og endalausum ættartölum, er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs.
5 Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.
6 Sumir eru viknir frá þessu og hafa snúið sér til hégómamáls.
7 Þeir vilja vera lögmálskennendur, þó að hvorki skilji þeir, hvað þeir sjálfir segja, né hvað þeir eru að fullyrða.
8 Vér vitum, að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega
9 og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum,
10 frillulífismönnum, mannhórum, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu.
11 Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir.
12 Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu,
13 mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.
14 Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.
15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur.
16 En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.
17 Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.
11 Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sendir hann tvo lærisveina sína
2 og segir við þá: "Farið í þorpið hér framundan ykkur. Um leið og þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann, og komið með hann.
3 Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna gjörið þið þetta?` Þá svarið: ,Herrann þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað."`
4 Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann.
5 Nokkrir sem stóðu þar, sögðu við þá: "Hvers vegna eruð þið að leysa folann?"
6 Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt, og þeir létu þá fara.
7 Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín, en hann settist á bak.
8 Og margir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir lim, sem þeir höfðu skorið á völlunum.
9 Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu, hrópuðu: "Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins!
10 Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!"
11 Hann fór inn í Jerúsalem og í helgidóminn. Þar leit hann yfir allt, en þar sem komið var kvöld, fór hann til Betaníu með þeim tólf.
by Icelandic Bible Society