Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 88

88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.

Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.

Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,

því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.

Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.

Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.

Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.

Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]

Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,

10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.

11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]

12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?

13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?

14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.

15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?

16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.

17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.

18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.

19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.

Sálmarnir 91-92

91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,

sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"

Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,

hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.

Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,

drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.

Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.

Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.

Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.

10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.

11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.

12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.

13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.

14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.

15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.

16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."

92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,

að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur

á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.

Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.

Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.

Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.

Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,

en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.

Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.

10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.

11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.

12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.

13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.

14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.

15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.

Jesaja 61:1-9

61 Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn,

til að boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda,

til að láta hinum hrelldu í Síon í té, _ gefa þeim höfuðdjásn í stað ösku, fagnaðarolíu í stað hryggðar, skartklæði í stað hugarvíls. Þeir munu kallaðir verða réttlætis-eikur, plantan Drottins honum til vegsemdar.

Þeir munu byggja upp hinar fornu rústir, reisa að nýju tóttir fyrri tíða, koma upp aftur eyddum borgum, sem legið hafa við velli í marga mannsaldra.

Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður,

en sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar Drottins og nefndir verða þjónar Guðs vors. Þér munuð njóta fjárafla þjóðanna og stæra yður af auðlegð þeirra.

Fyrir þá smán, er þér þolduð, skuluð þér fá tvöfalt. Í stað háðungar skulu þeir fagna yfir hlutskipti sínu. Fyrir því skulu þeir eignast tvöföld óðul í landi sínu, og eilíf gleði skal falla þeim í skaut.

Því að ég, Drottinn, elska réttlæti, en hata glæpsamlegt rán. Ég geld þeim laun þeirra með trúfesti og gjöri við þá eilífan sáttmála.

Niðjar þeirra munu kunnir verða meðal þjóðanna og afsprengi þeirra á meðal þjóðflokkanna. Allir sem sjá þá, munu kannast við, að þeir eru sú kynslóð, sem Drottinn hefir blessað.

Síðara bréf Páls til Tímó 3

Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.

Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir,

kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er,

sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.

Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!

Úr hópi þeirra eru mennirnir, sem smeygja sér inn á heimilin og ná á band sitt kvensniftum, sem syndum eru hlaðnar og leiðast af margvíslegum fýsnum.

Þær eru alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum.

Eins og þeir Jannes og Jambres stóðu í gegn Móse, þannig standa og þessir menn í gegn sannleikanum. Þeir eru menn hugspilltir og óhæfir í trúnni.

En þeim mun ekki verða ágengt, því að heimska þeirra mun verða hverjum manni augljós, eins og líka heimska hinna varð.

10 Þú hefur breytt eftir mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði,

11 í ofsóknum og þjáningum, slíkum sem fyrir mig komu í Antíokkíu, í Íkóníum og í Lýstru. Slíkar ofsóknir þoldi ég, og Drottinn frelsaði mig úr þeim öllum.

12 Já, allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.

13 En vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.

14 En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það.

15 Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.

16 Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti,

17 til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.

Markúsarguðspjall 10:32-45

32 Þeir voru nú á leið upp til Jerúsalem. Jesús gekk á undan þeim, en þeir voru skelfdir, og þeir sem eftir fylgdu voru hræddir. Og enn tók hann til sín þá tólf og fór að segja þeim, hvað fram við sig ætti að koma.

33 "Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum.

34 Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta, en eftir þrjá daga mun hann upp rísa."

35 Þá komu til hans Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: "Meistari, okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig."

36 Hann spurði þá: "Hvað viljið þið, að ég gjöri fyrir ykkur?"

37 Þeir svöruðu: "Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri."

38 Jesús sagði við þá: "Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn, sem ég skírist?"

39 Þeir sögðu við hann: "Það getum við." Jesús mælti: "Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist.

40 En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið."

41 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes.

42 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: "Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu.

43 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.

44 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll.

45 Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society