Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:97-120

97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.

98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.

99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.

100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.

101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.

102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig.

103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.

104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.

105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.

106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.

107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.

109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.

110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.

111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.

112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.

113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.

114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.

115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.

116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.

117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.

118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.

119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.

120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.

Sálmarnir 81-82

81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.

Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.

Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.

Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.

Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.

Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:

"Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.

Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]

Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!

10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.

11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.

12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.

13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.

14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,

15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.

16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.

17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."

82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:

"Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]

Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,

bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."

Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.

Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,

en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."

Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.

Jesaja 59:15-21

15 Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi. Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið.

16 Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann.

17 Hann íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju.

18 Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann.

19 Menn munu óttast nafn Drottins í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur Drottins knýr áfram.

20 En til Síonar kemur hann sem frelsari, til þeirra í Jakob, sem snúið hafa sér frá syndum _ segir Drottinn.

21 Þessi er sáttmálinn, sem ég gjöri við þá _ segir Drottinn: Andi minn, sem er yfir þér, og orð mín, sem ég hefi lagt í munn þér, þau skulu ekki víkja frá munni þínum, né frá munni niðja þinna, né frá munni niðja niðja þinna, _ segir Drottinn, _ héðan í frá og að eilífu.

Síðara bréf Páls til Tímó 1:15-2:13

15 Þú veist þetta, að allir Asíumenn sneru við mér bakinu. Í þeirra flokki eru þeir Fýgelus og Hermogenes.

16 Drottinn veiti miskunn heimili Ónesífórusar, því að oft hressti hann mig og fyrirvarð sig ekki fyrir fjötur minn,

17 heldur lét sér annt um að leita mín, þegar hann kom til Rómar og fann mig.

18 Gefi Drottinn honum miskunn að finna hjá Drottni Guði á þeim degi! Og þú þekkir manna best, hve mikla þjónustu hann innti af hendi í Efesus.

Styrkst þú þá, sonur minn, í náðinni, sem fæst fyrir Krist Jesú.

Og það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist, það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum.

Þú skalt og að þínu leyti illt þola, eins og góður hermaður Krists Jesú.

Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála.

Og sá sem keppir í íþróttum fær ekki sigursveiginn, nema hann keppi löglega.

Bóndinn, sem erfiðar, á fyrstur að fá sinn hlut af ávöxtunum.

Tak eftir því, sem ég segi. Drottinn mun gefa þér skilning á öllu.

Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og boðað er í fagnaðarerindi mínu.

Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað.

10 Fyrir því þoli ég allt sakir hinna útvöldu, til þess að þeir einnig hljóti hjálpræðið, í Kristi Jesú með eilífri dýrð.

11 Það orð er satt: Ef vér höfum dáið með honum, þá munum vér og lifa með honum.

12 Ef vér stöndum stöðugir, þá munum vér og með honum ríkja. Ef vér afneitum honum, þá mun hann og afneita oss.

13 Þótt vér séum ótrúir, þá verður hann samt trúr, því að ekki getur hann afneitað sjálfum sér.

Markúsarguðspjall 10:1-16

10 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Júdeu og yfir um Jórdan. Fjöldi fólks safnast enn til hans, og hann kenndi þeim, eins og hann var vanur.

Farísear komu og spurðu hann, hvort maður mætti skilja við konu sína. Þeir vildu freista hans.

Hann svaraði þeim: "Hvað hefur Móse boðið yður?"

Þeir sögðu: "Móse leyfði að ,rita skilnaðarbréf og skilja við hana."`

Jesús mælti þá til þeirra: "Vegna harðúðar hjartna yðar ritaði hann yður þetta boðorð,

en frá upphafi sköpunar ,gjörði Guð þau karl og konu.

Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni,

og þau tvö skulu verða einn maður.` Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.

Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."

10 Þegar lærisveinarnir voru komnir inn, spurðu þeir hann aftur um þetta.

11 En hann sagði við þá: "Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni.

12 Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór."

13 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá.

14 Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.

15 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."

16 Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society