Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 93

93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.

Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.

Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.

Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.

Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.

Sálmarnir 96

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Sálmarnir 34

34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.

Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.

Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.

Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.

Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.

Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.

Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.

Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.

Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.

10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.

11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.

12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.

13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,

14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,

15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.

16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.

17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.

18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.

19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.

20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.

21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.

22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.

23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.

Jesaja 57:14-21

14 Sagt mun verða: "Leggið braut, leggið braut, greiðið veginn, ryðjið hverjum ásteytingarsteini úr vegi þjóðar minnar!"

15 Já, svo segir hinn hái og háleiti, hann sem ríkir eilíflega og heitir Heilagur: Ég bý á háum og helgum stað, en einnig hjá þeim, sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu.

16 Því að ég þreyti ekki deilur eilíflega og reiðist ekki ævinlega, ella mundi andi mannsins vanmegnast fyrir mér og sálirnar, sem ég hefi skapað.

17 Sökum hinnar syndsamlegu ágirndar hans reiddist ég og laust hann, ég byrgði andlit mitt og var reiður. Þrjóskufullur hélt hann þá leið, er hann lysti.

18 Ég sá vegu hans og ég vil lækna hann, ég vil leiða hann og veita honum hugsvölun. Öllum þeim, sem hryggir eru hjá honum,

19 vil ég gefa ávöxt varanna _ segir Drottinn. Friður, friður fyrir fjarlæga og fyrir nálæga. Ég lækna hann!

20 En hinir óguðlegu eru sem ólgusjór, því að hann getur ekki verið kyrr og bylgjur hans róta upp aur og leðju.

21 Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.

Bréfið til Hebrea 12:1-6

12 Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.

Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.

Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.

Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið.

Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig.

Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur.

Jóhannesarguðspjall 7:37-46

37 Síðasta daginn, hátíðardaginn mikla, stóð Jesús þar og kallaði: "Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki.

38 Sá sem trúir á mig, _ frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir."

39 Þarna átti hann við andann, er þeir skyldu hljóta, sem á hann trúa. Því enn var andinn ekki gefinn, þar eð Jesús var ekki enn dýrlegur orðinn.

40 Þá sögðu nokkrir úr mannfjöldanum, sem hlýddu á þessi orð: "Þessi er sannarlega spámaðurinn."

41 Aðrir mæltu: "Hann er Kristur." En sumir sögðu: "Mundi Kristur þá koma frá Galíleu?

42 Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?"

43 Þannig greindi menn á um hann.

44 Nokkrir þeirra vildu grípa hann, en þó lagði enginn hendur á hann.

45 Nú komu þjónarnir til æðstu prestanna og faríseanna, sem sögðu við þá: "Hvers vegna komuð þér ekki með hann?"

46 Þjónarnir svöruðu: "Aldrei hefur nokkur maður talað þannig."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society