Book of Common Prayer
61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.
2 Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.
3 Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.
4 Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.
5 Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]
6 Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.
7 Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.
8 Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.
9 Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.
62 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt.
3 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.
4 Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr?
5 Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela]
6 Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín.
7 Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.
8 Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.
9 Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. [Sela]
10 Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman.
11 Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.
12 Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: "Hjá Guði er styrkleikur."
13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.
68 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2 Guð rís upp, óvinir hans tvístrast, þeir sem hata hann flýja fyrir augliti hans.
3 Eins og reykur eyðist, eyðast þeir, eins og vax bráðnar í eldi, tortímast óguðlegir fyrir augliti Guðs.
4 En réttlátir gleðjast, fagna fyrir augliti Guðs og kætast stórum.
5 Syngið fyrir Guði, vegsamið nafn hans, leggið braut fyrir hann er ekur gegnum öræfin. Drottinn heitir hann, fagnið fyrir augliti hans.
6 Hann er faðir föðurlausra, vörður ekknanna, Guð í sínum heilaga bústað.
7 Guð lætur hina einmana hverfa heim aftur, hann leiðir hina fjötruðu út til hamingju, en uppreisnarseggir skulu búa í hrjóstrugu landi.
8 Ó Guð, þegar þú fórst út á undan lýð þínum, þegar þú brunaðir fram um öræfin, [Sela]
9 þá nötraði jörðin, og himnarnir drupu fyrir Guði, Drottni frá Sínaí, fyrir Guði, Ísraels Guði.
10 Ríkulegu regni dreyptir þú, ó Guð, á arfleifð þína, það sem vanmegnaðist, styrktir þú.
11 Staðinn þar sem söfnuður þinn dvelur, bjóst þú hinum hrjáðu, ó Guð, sakir gæsku þinnar.
12 Drottinn lætur orð sín rætast, konurnar sem sigur boða eru mikill her:
13 "Konungar hersveitanna flýja, þeir flýja, en hún sem heima situr skiptir herfangi.
14 Hvort viljið þér liggja milli fjárgirðinganna? Vængir dúfunnar eru lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli."
15 Þegar Hinn almáttki tvístraði konungunum, þá snjóaði á Salmon.
16 Guðs fjall er Basansfjall, tindafjall er Basansfjall.
17 Hví lítið þér, tindafjöll, öfundarauga það fjall er Guð hefir kjörið sér til bústaðar, þar sem Drottinn samt mun búa um eilífð?
18 Hervagnar Guðs eru tíþúsundir, þúsundir á þúsundir ofan. Hinn alvaldi kom frá Sínaí til helgidómsins.
19 Þú steigst upp til hæða, hafðir á burt bandingja, tókst við gjöfum frá mönnum, jafnvel uppreisnarmönnum, að þú, Drottinn, Guð, mættir búa þar.
20 Lofaður sé Drottinn, er ber oss dag eftir dag, Guð er hjálpráð vort. [Sela]
21 Guð er oss hjálpræðisguð, og Drottinn alvaldur bjargar frá dauðanum.
22 Já, Guð sundurmolar höfuð óvina sinna, hvirfil þeirra, er ganga í sekt sinni.
23 Drottinn hefir sagt: "Ég vil sækja þá til Basan, flytja þá frá djúpi hafsins,
24 að þú megir troða þá til bana, að tungur hunda þinna megi fá sinn hlut af óvinunum."
25 Menn horfa á inngöngu þína, ó Guð, inngöngu Guðs míns og konungs í musterið.
26 Söngvarar eru í fararbroddi, þá strengleikarar, ásamt yngismeyjum, er berja bumbur.
27 Lofið Guð á hátíðarsamkundum, lofið Drottin, þér sem eruð af uppsprettu Ísraels.
28 Þar er Benjamín litli, er ríkir yfir þeim, höfðingjar Júda í þyrpingu, höfðingjar Sebúlons, höfðingjar Naftalí.
29 Bjóð út, ó Guð, styrkleik þínum, þeim styrkleik sem þú hefir auðsýnt oss
30 frá musteri þínu í Jerúsalem. Konungar skulu færa þér gjafir.
31 Ógna þú dýrinu í sefinu, uxaflokkunum ásamt bolakálfum þjóðanna, sem troða menn fótum sökum ágirndar sinnar á silfri. Tvístra þú þjóðum, er unna ófriði!
32 Það koma sendiherrar frá Egyptalandi, Bláland færir Guði gjafir hröðum höndum.
33 Þér konungsríki jarðar, syngið Guði, syngið Drottni lof, [Sela]
34 honum sem ekur um himnanna himna frá eilífð, hann lætur raust sína gjalla, hina voldugu raust.
35 Tjáið Guði dýrð, yfir Ísrael er hátign hans og máttur hans í skýjunum.
36 Ógurlegur er Guð í helgidómi sínum, Ísraels Guð veitir lýðnum mátt og megin. Lofaður sé Guð!
52 Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrk þínum, Síon! Klæð þig skartklæðum þínum, Jerúsalem, þú hin heilaga borg! því að enginn óumskorinn eða óhreinn skal framar inn í þig ganga.
2 Hrist af þér rykið, rís upp og sest í sæti þitt, Jerúsalem! Losa þú af þér hálsfjötra þína, þú hin hertekna, dóttirin Síon!
3 Svo segir Drottinn: Þér voruð seldir fyrir ekkert, þér skuluð og án silfurs leystir verða.
4 Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Til Egyptalands fór lýður minn forðum til þess að dveljast þar um hríð, og Assýringar kúguðu hann heimildarlaust.
5 Og nú, hvað hefi ég hér að gjöra _ segir Drottinn _ þar sem lýður minn hefir verið burt numinn fyrir ekkert? Yfirdrottnarar hans dramba _ segir Drottinn _ og stöðugt er nafn mitt smáð liðlangan daginn.
6 Fyrir því skal lýður minn fá að þekkja nafn mitt, fá að reyna það á þeim degi, að það er ég, sem segi: "Sjá, hér er ég!"
7 Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: "Guð þinn er setstur að völdum!"
8 Varðmenn þínir hefja upp raustina allir í einu, þeir æpa fagnaðaróp, því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar.
9 Hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp allar í einu, þér eyðirústir Jerúsalem, því að Drottinn huggar lýð sinn, leysir Jerúsalem.
10 Drottinn hefir beran gjört heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða, og öll endimörk jarðarinnar skulu sjá hjálpræði Guðs vors.
11 Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker Drottins!
12 Því að eigi skuluð þér í flýti brott ganga né fara með skyndingu, því að Drottinn fer fyrir yður í fararbroddi og Guð Ísraels gengur aftastur í flokki yðar.
12 Ég bið yður, bræður: Verðið eins og ég, því að ég er orðinn eins og þér. Í engu hafið þér gjört á hluta minn.
13 Þér vitið, að sjúkleiki minn varð tilefni til þess, að ég fyrst boðaði yður fagnaðarerindið.
14 En þér létuð ekki líkamsásigkomulag mitt verða yður til ásteytingar og óvirtuð mig ekki né sýnduð mér óbeit, heldur tókuð þér á móti mér eins og engli Guðs, eins og Kristi Jesú sjálfum.
15 Hvað er nú orðið úr blessunarbænum yðar? Það vitni ber ég yður, að augun hefðuð þér stungið úr yður og gefið mér, ef auðið hefði verið.
16 Er ég þá orðinn óvinur yðar, vegna þess að ég segi yður sannleikann?
17 Þeir láta sér annt um yður, en það er eigi af góðu, heldur vilja þeir einangra yður, til þess að þér látið yður annt um þá.
18 Það er ávallt gott að láta sér annt um það, sem gott er, og ekki aðeins meðan ég er hjá yður,
19 börn mín, sem ég að nýju el með harmkvælum, þangað til Kristur er myndaður í yður!
20 Ég vildi ég væri nú hjá yður og gæti talað nýjum rómi, því að ég er ráðalaus með yður.
8 Um þessar mundir bar enn svo við, að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá:
2 "Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar.
3 Láti ég þá fara fastandi heim til sín, örmagnast þeir á leiðinni, en sumir þeirra eru langt að."
4 Þá svöruðu lærisveinarnir: "Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?"
5 Hann spurði þá: "Hve mörg brauð hafið þér?" Þeir sögðu: "Sjö."
6 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum, að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið.
7 Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann þakkaði Guði og bauð, að einnig þeir skyldu fram bornir.
8 Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur.
9 En þeir voru um fjórar þúsundir. Síðan lét hann þá fara.
10 Og hann sté þegar í bátinn með lærisveinum sínum og kom í Dalmanútabyggðir.
by Icelandic Bible Society