Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 24

24 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.

Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum.

_ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?

_ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.

Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.

_ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

_ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan.

_ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.

10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]

Sálmarnir 29

29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.

Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.

Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.

Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.

Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.

Raust Drottins klýfur eldsloga.

Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.

Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!

10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.

11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.

Sálmarnir 8

Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.

Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,

hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?

Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:

sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,

fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.

10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Sálmarnir 84

84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.

Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.

Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.

Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!

Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]

Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.

Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.

Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.

Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]

10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!

11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.

12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.

13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.

Jesaja 51:9-16

Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrkleika, armleggur Drottins! Vakna þú, eins og fyrr á tíðum, eins og í árdaga! Varst það eigi þú, sem banaðir skrímslinu og lagðir í gegn drekann?

10 Varst það eigi þú, sem þurrkaðir upp hafið, vötn hins mikla djúps, sem gjörðir sjávardjúpin að vegi, svo að hinir endurleystu gætu komist yfir?

11 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa og koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.

12 Ég, ég er sá sem huggar yður. Hver ert þú, að þú skulir hrædd vera við mennina, sem eiga að deyja, og mannanna börn, sem felld verða eins og grasið,

13 en gleymir Drottni, skapara þínum, sem útþandi himininn og grundvallaði jörðina, að þú óttast stöðugt liðlangan daginn heift kúgarans? Þegar hann býr sig til að gjöreyða, hvar er þá heift kúgarans?

14 Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða, og þeir skulu eigi deyja og fara í gröfina, né heldur skal þá skorta brauð _

15 svo sannarlega sem ég er Drottinn, Guð þinn, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja. Drottinn allsherjar er nafn hans.

16 Ég hefi lagt mín orð í munn þér og skýlt þér undir skugga handar minnar, ég, sem gróðursetti himininn og grundvallaði jörðina og segi við Síon: "Þú ert minn lýður!"

Bréfið til Hebrea 11:8-16

Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá.

Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti.

10 Því að hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.

11 Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son, og þó var Sara óbyrja og hann kominn yfir aldur. Hann treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið.

12 Þess vegna kom út af honum, einum manni, og það mjög ellihrumum, slík niðja mergð sem stjörnur eru á himni og sandkorn á sjávarströnd, er ekki verður tölu á komið.

13 Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.

14 Þeir, sem slíkt mæla, sýna með því, að þeir eru að leita eigin ættjarðar.

15 Hefðu þeir nú átt við ættjörðina, sem þeir fóru frá, þá hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur.

16 En nú þráðu þeir betri ættjörð, það er að segja himneska. Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra, því að borg bjó hann þeim.

Jóhannesarguðspjall 7:14-31

14 Er hátíðin var þegar hálfnuð, fór Jesús upp í helgidóminn og tók að kenna.

15 Gyðingar urðu forviða og sögðu: "Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?"

16 Jesús svaraði þeim: "Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.

17 Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.

18 Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti.

19 Gaf Móse yður ekki lögmálið? Samt heldur enginn yðar lögmálið. Hví sitjið þér um líf mitt?"

20 Fólkið ansaði: "Þú ert haldinn illum anda. Hver situr um líf þitt?"

21 Jesús svaraði þeim: "Eitt verk gjörði ég, og þér undrist það allir.

22 Móse gaf yður umskurnina _ hún er að vísu ekki frá Móse, heldur feðrunum _ og þér umskerið mann jafnvel á hvíldardegi.

23 Fyrst maður er umskorinn á hvíldardegi, til þess að lögmál Móse verði ekki brotið, hví reiðist þér mér, að ég gjörði manninn allan heilan á hvíldardegi?

24 Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm."

25 Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: "Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta?

26 Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur?

27 Nei, vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er."

28 Jesús var að kenna í helgidóminum, og nú kallaði hann: "Bæði þekkið þér mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn af sjálfum mér. En sá er sannur, sem sendi mig, og hann þekkið þér ekki.

29 Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig."

30 Nú ætluðu þeir að grípa hann, en enginn lagði hendur á hann, því stund hans var enn ekki komin.

31 En af alþýðu manna tóku margir að trúa á hann og sögðu: "Mun Kristur gjöra fleiri tákn, þegar hann kemur, en þessi maður hefur gjört?"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society