Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 113

113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.

Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.

Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.

Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt

og horfir djúpt á himni og á jörðu.

Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum

og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.

Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.

Sálmarnir 122

122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."

Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.

Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,

þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,

því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.

Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.

Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.

Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.

Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.

Fyrri Samúelsbók 1:20-28

20 Og er ár var liðið, hafði Hanna orðið þunguð og alið son, og hún nefndi hann Samúel, "því að ég hefi beðið Drottin um hann."

21 Elkana fór nú með alla fjölskyldu sína til þess að færa Drottni hina árlegu fórn og áheit sitt.

22 En Hanna fór ekki, heldur sagði við mann sinn: "Ég fer ekki fyrr en sveinninn er vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann, svo að hann birtist fyrir augliti Drottins og verði þar ávallt upp frá því."

23 Elkana, maður hennar, sagði við hana: "Gjör þú sem þér vel líkar. Ver þú kyrr heima, uns þú hefir vanið hann af brjósti. Drottinn láti aðeins orð þín rætast." Síðan var konan kyrr heima og hafði son sinn á brjósti, uns hún vandi hann af.

24 En er hún hafði vanið hann af brjósti, fór hún með hann og hafði með sér þriggja ára gamalt naut og eina efu mjöls og legil víns. Og hún fór með hann í hús Drottins í Síló. En sveinninn var þá ungur.

25 Þau slátruðu nautinu og fóru með sveininn til Elí.

26 Og hún sagði: "Heyr, herra minn! Svo sannarlega sem þú lifir, herra minn, er ég kona sú, er stóð hér hjá þér til þess að gjöra bæn mína til Drottins.

27 Um svein þennan gjörði ég bæn mína, og Drottinn veitti mér bæn mína, sem ég bað hann um.

28 Fyrir því vil ég og ljá Drottni hann. Svo lengi sem hann lifir, skal hann vera Drottni léður." Og þau féllu þar fram fyrir Drottin.

Bréf Páls til Rómverja 8:14-21

14 Því að allir þeir, sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs börn.

15 En þér hafið ekki fengið anda, sem gjörir yður að þrælum að lifa aftur í hræðslu, heldur hafið þér fengið anda, sem gefur yður barnarétt. Í þeim anda köllum vér: "Abba, faðir!"

16 Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn.

17 En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.

18 Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast.

19 Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber.

20 Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann,

21 í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society