Book of Common Prayer
41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.
3 Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.
4 Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.
5 Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."
6 Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"
7 Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.
8 Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:
9 "Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."
10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.
11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.
12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.
13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________
14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.
52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,
2 þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.
3 Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!
4 Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!
5 Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]
6 Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!
7 Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]
8 Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:
9 "Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."
10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.
11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.
44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.
3 Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.
4 Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.
5 Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.
6 Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.
7 Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,
8 heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.
9 Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]
10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.
11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.
12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.
13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.
14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.
16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,
17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.
18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.
19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,
20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.
21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,
22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?
23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.
24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!
25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?
26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.
27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.
48 Heyrið þetta, þér Jakobs niðjar, þér sem nefndir eruð eftir Ísrael og runnir eruð úr Júda lindum, þér sem sverjið við nafn Drottins og tignið Ísraels Guð, þótt eigi sé í sannleika og réttlæti,
2 því að þeir kenna sig við hina helgu borg og leita trausts hjá Ísraels Guði: Nafn hans er Drottinn allsherjar.
3 Það sem nú er fram komið, hefi ég kunngjört fyrir löngu, það er útgengið af mínum munni, og ég hefi gjört það heyrinkunnugt. Skyndilega færði ég það til vegar, og það kom fram.
4 Af því að ég vissi, að þú ert þrjóskur og háls þinn seigur sem járnseymi og enni þitt hart sem kopar,
5 fyrir því kunngjörði ég þér það löngu fyrir og lét þig vita það áður en það kom fram, til þess að þú skyldir ekki segja: "Goð mitt hefir komið því til leiðar, og skurðgoð mitt og hið steypta líkneski mitt hefir ráðstafað því."
6 Þú hefir heyrt það, sjá, nú er það allt komið fram! Og þér, hljótið þér ekki að játa það? Nú boða ég þér nýja hluti og hulda, sem þú ekkert veist um.
7 Þeir eru nú að skapast, en eigi fyrr, fyrr en í dag hefir þú ekkert um þá heyrt, svo að þú skyldir ekki geta sagt: "Sjá, ég vissi það!"
8 Þú hefir hvorki heyrt það né vitað það, né heldur hefir eyra þitt verið opið fyrir löngu, því að ég vissi, að þú ert mjög ótrúr og að þú hefir kallaður verið "trúrofi" frá móðurlífi.
9 Fyrir sakir nafns míns sefa ég reiði mína og vegna lofs míns hefti ég hana þér í vil, svo að ég uppræti þig eigi.
10 Sjá, ég hefi hreinsað þig, þó eigi sem silfur, ég hefi reynt þig í bræðsluofni hörmungarinnar.
11 Mín vegna, sjálfs mín vegna gjöri ég það, og dýrð mína gef ég eigi öðrum, því að hversu mjög yrði nafn mitt vanhelgað!
1 Páll postuli _ ekki sendur af mönnum né að tilhlutun manns, heldur að tilhlutun Jesú Krists og Guðs föður, sem uppvakti hann frá dauðum _
2 og allir bræðurnir, sem með mér eru, heilsa söfnuðunum í Galatalandi.
3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi,
4 sem gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs vors og föður.
5 Honum sé dýrð um aldir alda, amen.
6 Mig furðar, að þér svo fljótt látið snúast frá honum, sem kallaði yður í náð Krists, til annars konar fagnaðarerindis,
7 sem þó er ekki til; heldur eru einhverjir að trufla yður og vilja umhverfa fagnaðarerindinu um Krist.
8 En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.
9 Eins og vér höfum áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið veitt viðtöku, þá sé hann bölvaður.
10 Er ég nú að reyna að sannfæra menn eða Guð? Er ég að leitast við að þóknast mönnum? Ef ég væri enn að þóknast mönnum, þá væri ég ekki þjónn Krists.
11 Það læt ég yður vita, bræður, að fagnaðarerindið, sem ég hef boðað, er ekki mannaverk.
12 Ekki hef ég tekið við því af manni né látið kenna mér það, heldur fengið það fyrir opinberun Jesú Krists.
13 Þér hafið heyrt um háttsemi mína áður fyrri í Gyðingdóminum, hversu ákaflega ég ofsótti söfnuð Guðs og vildi eyða honum.
14 Ég fór lengra í Gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlætingasamari um erfikenningu forfeðra minna.
15 En þegar Guði, sem hafði útvalið mig frá móðurlífi og af náð sinni kallað,
16 þóknaðist að opinbera mér son sinn, til þess að ég boðaði fagnaðarerindið um hann meðal heiðingjanna, þá ráðgaðist ég eigi við neinn mann,
17 ekki fór ég heldur upp til Jerúsalem til þeirra, sem voru postular á undan mér, heldur fór ég jafnskjótt til Arabíu og sneri svo aftur til Damaskus.
21 Þegar Jesús kom aftur yfir um á bátnum, safnaðist að honum mikill mannfjöldi, þar sem hann var við vatnið.
22 Þar kom og einn af samkundustjórunum, Jaírus að nafni, og er hann sá Jesú, féll hann til fóta honum,
23 bað hann ákaft og sagði: "Dóttir mín litla er að dauða komin. Kom og legg hendur yfir hana, að hún læknist og lifi."
24 Jesús fór með honum. Og mikill mannfjöldi fylgdi honum, og var þröng um hann.
25 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár.
26 Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni, en engan bata fengið, öllu heldur versnað.
27 Hún heyrði um Jesú og kom nú í mannþrönginni að baki honum og snart klæði hans.
28 Hún hugsaði: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða."
29 Jafnskjótt þvarr blóðlát hennar, og hún fann það á sér, að hún var heil af meini sínu.
30 Jesús fann þegar á sjálfum sér, að kraftur hafði farið út frá honum, og hann sneri sér við í mannþrönginni og sagði: "Hver snart klæði mín?"
31 Lærisveinar hans sögðu við hann: "Þú sérð, að mannfjöldinn þrengir að þér, og spyrð þó: Hver snart mig?"
32 Hann litaðist um til að sjá, hver þetta hefði gjört,
33 en konan, sem vissi, hvað fram við sig hafði farið, kom hrædd og skjálfandi, féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann.
34 Jesús sagði við hana: "Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna."
35 Meðan hann var að segja þetta, koma menn heiman frá samkundustjóranum og segja: "Dóttir þín er látin, hví ómakar þú meistarann lengur?"
36 Jesús heyrði, hvað þeir sögðu, en gaf ekki um, heldur sagði við samkundustjórann: "Óttast ekki, trú þú aðeins."
37 Og nú leyfði hann engum að fylgja sér nema Pétri og þeim bræðrum Jakobi og Jóhannesi.
38 Þeir koma að húsi samkundustjórans. Þar sér hann, að allt er í uppnámi, grátur mikill og kveinan.
39 Hann gengur inn og segir við þá: "Hví hafið þér svo hátt og grátið? Barnið er ekki dáið, það sefur."
40 En þeir hlógu að honum. Þá lét hann alla fara út og tók með sér föður barnsins og móður og þá sem með honum voru, og gekk þar inn, sem barnið var.
41 Og hann tók hönd barnsins og sagði: "Talíþa kúm!" Það þýðir: "Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!"
42 Jafnskjótt reis stúlkan upp og fór að ganga um, en hún var tólf ára. Og menn urðu frá sér numdir af undrun.
43 En hann lagði ríkt á við þá að láta engan vita þetta og bauð að gefa henni að eta.
by Icelandic Bible Society