Book of Common Prayer
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.
2 Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.
3 Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,
4 því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]
5 Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]
6 Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.
7 Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]
8 Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:
9 Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.
10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.
11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
46 Bel er hokinn, Nebó er boginn. Líkneski þeirra eru fengin eykjum og gripum, goðalíkneskin, sem þér áður báruð um kring, eru nú látin upp á þreyttan eyk, eins og önnur byrði.
2 Þeir eru bæði bognir og hoknir. Þeir megna ekki að frelsa byrðina, og sjálfir hljóta þeir að fara í útlegð.
3 Hlýðið á mig, þér kynsmenn Jakobs, og allir þér, sem eftir eruð af kyni Ísraels, þér sem eruð mér á herðar lagðir allt í frá móðurkviði og ég hefi borið allt í frá móðurlífi:
4 Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum. Ég hefi gjört yður, og ég skal bera yður, ég skal bera yður og frelsa.
5 Við hvern viljið þér samlíkja mér og jafna mér? Saman við hvern viljið þér bera mig sem jafningja minn?
6 Þeir sem steypa gullinu úr sjóðnum og vega silfrið á vogarskálum, leigja sér gullsmið til að smíða úr því guð, síðan knékrjúpa þeir og falla fram.
7 Þeir lyfta honum á axlir sér, bera hann og setja hann á sinn stað, og þar stendur hann og víkur ekki úr stað. Og þótt einhver ákalli hann, þá svarar hann ekki, hann frelsar eigi úr nauðum.
8 Minnist þessa og látið yður segjast, leggið það á hjarta, þér trúrofar.
9 Minnist þess hins fyrra frá upphafi, að ég er Guð og enginn annar, hinn sanni Guð og enginn minn líki.
10 Ég kunngjörði endalokin frá öndverðu og sagði fyrir fram það, sem eigi var enn fram komið. Ég segi: Mín ráðsályktun stendur stöðug, og allt, sem mér vel líkar, framkvæmi ég.
11 Ég kalla örninn úr austurátt, úr fjarlægu landi mann þann, er framkvæmir ráðsályktun mína. Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig.
12 Hlýðið á mig, þér harðsvíruðu, sem eruð fjarlægir réttlætinu!
13 Ég nálægi mitt réttlæti, það er ekki langt í burtu, og hjálp mín skal ekki dvelja. Ég veiti hjálp í Síon og vegsemd mína Ísrael.
10 Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans.
11 Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.
12 Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.
13 Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.
14 Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins
15 og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.
16 Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.
17 Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.
18 Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.
19 Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins.
20 Þess boðberi er ég í fjötrum mínum. Biðjið, að ég geti flutt það með djörfung, eins og mér ber að tala.
21 En til þess að þér fáið einnig að vita um hagi mína, hvernig mér líður, þá mun Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður í þjónustu Drottins, skýra yður frá öllu.
22 Ég sendi hann til yðar einkum í því skyni, að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður.
23 Friður sé með bræðrunum og kærleikur, samfara trú frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
5 Þeir komu nú yfir um vatnið í byggð Gerasena.
2 Og um leið og Jesús sté úr bátnum, kom maður á móti honum frá gröfunum, haldinn óhreinum anda.
3 Hann hafðist við í gröfunum, og enginn gat lengur bundið hann, ekki einu sinni með hlekkjum.
4 Oft hafði hann verið fjötraður á fótum og höndum, en hann braut jafnóðum af sér hlekkina og sleit fjötrana, og gat enginn ráðið við hann.
5 Allar nætur og daga var hann í gröfunum eða á fjöllum, æpti og lamdi sig grjóti.
6 Þegar hann sá Jesú álengdar, hljóp hann og féll fram fyrir honum
7 og æpti hárri röddu: "Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég særi þig við Guð, kvel þú mig eigi!"
8 Því að Jesús hafði sagt við hann: "Þú óhreini andi, far út af manninum."
9 Jesús spurði hann þá: "Hvað heitir þú?" Hinn svaraði: "Hersing heiti ég, vér erum margir."
10 Og hann bað Jesú ákaft að senda þá ekki brott úr héraðinu.
11 En þar í fjallinu var mikil svínahjörð á beit.
12 Og þeir báðu hann: "Send oss í svínin, lát oss fara í þau!"
13 Hann leyfði þeim það, og fóru þá óhreinu andarnir út og í svínin, og hjörðin, nær tveim þúsundum, ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði þar.
14 En hirðarnir flýðu og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði,
15 komu til Jesú og sáu haldna manninn, sem hersingin hafði verið í, sitja þar klæddan og heilvita. Og þeir urðu hræddir.
16 En sjónarvottar sögðu þeim, hvað fram hafði farið við haldna manninn, og frá svínunum.
17 Og þeir tóku að biðja Jesú að fara burt úr héruðum þeirra.
18 Þá er hann sté í bátinn, bað sá, er haldinn hafði verið, að fá að vera með honum.
19 En Jesús leyfði honum það eigi, heldur sagði: "Far heim til þín og þinna, og seg þeim, hve mikið Drottinn hefur gjört fyrir þig og verið þér miskunnsamur."
20 Hann fór og tók að kunngjöra í Dekapólis, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört, og undruðust það allir.
by Icelandic Bible Society