Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 26

26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.

Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.

Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.

Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.

Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.

Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,

til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.

Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,

10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.

11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.

12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.

Sálmarnir 28

28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.

Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.

Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.

Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.

Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.

Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.

Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.

Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.

Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.

Sálmarnir 36

36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.

Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.

Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.

Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.

Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.

Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.

Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.

Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.

10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.

11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.

12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.

13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.

Sálmarnir 39

39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.

Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."

Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.

Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:

"Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.

Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."

Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.

Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.

10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.

11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.

12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.

14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.

Jesaja 44:9-20

Þeir sem búa til goðalíkneski, eru hver með öðrum hégóminn einber, og dýrindissmíðar þeirra eru að engu liði. Vottar slíkra guða sjá eigi og vita eigi, til þess að þeir verði sér til skammar.

10 Hver hefir myndað guð og steypt líkneski, til þess að það verði að engu liði?

11 Sjá, allir dýrkendur þess munu til skammar verða. Og smiðirnir, þeir eru þó ekki nema menn, _ látum þá alla safnast saman og ganga fram, þeir skulu skelfast og til skammar verða hver með öðrum.

12 Járnsmiðurinn myndar egg á öxina, tekur hana fram við glóð og lagar hana með hömrunum. Hann býr hana til með hinum sterka armlegg sínum. En svelti hann, þá vanmegnast hann, fái hann ekki vatn að drekka, lýist hann.

13 Trésmiðurinn strengir mæliþráð sinn og markar fyrir með alnum, telgir tréð með hnífum og afmarkar það með sirkli. Og hann býr til úr því mannlíkan, fríðan mann, til þess að búa í húsi.

14 Hann heggur sér sedrustré, tekur steineik eða eik og velur um meðal skógartrjánna. Hann gróðursetur furutré, og regnskúrirnar koma vexti í þau.

15 Og maðurinn hefir tréð til eldiviðar, hann tekur nokkuð af því og vermir sig við, hann kveikir eld við það og bakar brauð, en auk þess býr hann til guð úr því og fellur fram fyrir honum. Hann smíðar úr því skurðgoð og knékrýpur því.

16 Helmingnum af trénu brennir hann í eldi. Við þann helminginn steikir hann kjöt, etur steik og verður saddur; hann vermir sig og segir: "Æ, nú hitnar mér, ég sé eldinn."

17 En úr afganginum býr hann til guð, skurðgoð handa sér. Hann knékrýpur því, fellur fram og gjörir bæn sína til þess og segir: "Frelsaðu mig, því að þú ert minn guð!"

18 Þeir hafa hvorki skyn né skilning, augu þeirra eru lokuð, svo að þeir sjá ekki, og hjörtu þeirra, svo að þeir skynja ekki.

19 Og þeir hugleiða það eigi, þeir hafa eigi vitsmuni og skilning til að hugsa með sér: "Helmingnum af því brenndi ég í eldi, ég bakaði brauð við glæðurnar, steikti kjöt og át; og svo ætti ég að fara að búa til andstyggilegt líkneski af því, sem afgangs er, og falla á kné fyrir trédrumbi!"

20 Þann mann, er sækist eftir ösku, hefir táldregið hjarta leitt afvega, svo að hann fær eigi borgið lífi sínu. Hann segir ekki við sjálfan sig: "Er það ekki svikatál, sem ég held á í hægri hendi minni?"

Bréf Páls til Efesusmanna 4:17-32

17 Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus,

18 skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta.

19 Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.

20 En svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist.

21 Því að ég veit, að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú:

22 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum,

23 en endurnýjast í anda og hugsun og

24 íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

25 Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.

26 Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.

27 Gefið djöflinum ekkert færi.

28 Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.

29 Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.

30 Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins.

31 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.

32 Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Markúsarguðspjall 3:19-35

19 og Júdas Ískaríot, þann er sveik hann.

20 Þegar hann kemur heim, safnast þar aftur mannfjöldi, svo þeir gátu ekki einu sinni matast.

21 Hans nánustu fréttu það og fóru út og vildu ná honum, enda sögðu þeir, að hann væri frá sér.

22 Og fræðimennirnir, er komnir voru ofan frá Jerúsalem, sögðu: "Beelsebúl er í honum. Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana."

23 En Jesús kallaði þá til sín og mælti við þá í líkingum: "Hvernig getur Satan rekið Satan út?

24 Verði ríki sjálfu sér sundurþykkt, fær það ríki eigi staðist,

25 og verði heimili sjálfu sér sundurþykkt, fær það heimili eigi staðist.

26 Sé nú Satan risinn gegn sjálfum sér og orðinn sér sundurþykkur, fær hann ekki staðist, þá er úti um hann.

27 Enginn getur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans.

28 Sannlega segi ég yður: Allt verður mannanna börnum fyrirgefið, allar syndir þeirra og lastmælin, hve mjög sem þeir kunna að lastmæla,

29 en sá sem lastmælir gegn heilögum anda, fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd."

30 En þeir höfðu sagt: "Óhreinn andi er í honum."

31 Nú koma móðir hans og bræður, standa úti og gera honum orð að koma.

32 Mikill fjöldi sat í kringum hann, og var honum sagt: "Móðir þín, bræður og systur eru hér úti og spyrja eftir þér."

33 Hann svarar þeim: "Hver er móðir mín og bræður?"

34 Og hann leit á þá, er kringum hann sátu, og segir: "Hér er móðir mín og bræður mínir!

35 Hver, sem gjörir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society