Book of Common Prayer
25 Davíðssálmur.
2 Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.
3 Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.
4 Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.
5 Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.
6 Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.
7 Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.
8 Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.
9 Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.
10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.
11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.
12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.
13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.
14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.
15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.
16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.
17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.
18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.
19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.
20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.
21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.
22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.
9 Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.
2 Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
3 Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.
4 Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.
5 Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.
6 Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.
7 Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.
8 En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.
9 Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.
10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.
11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.
12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.
13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:
14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,
15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."
16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.
17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]
18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.
19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.
20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.
21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]
15 Davíðssálmur Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?
2 Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta,
3 sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til;
4 sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af,
5 sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum _ sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.
6 Svo segir Drottinn, konungur Ísraels og frelsari, Drottinn allsherjar: Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég.
7 Hver er sem ég _ hann segi frá því og sanni mér það _ frá því er ég hóf hina örgömlu þjóð? Látum þá kunngjöra hið ókomna og það sem verða mun!
8 Skelfist eigi og látið eigi hugfallast. Hefi ég ekki þegar fyrir löngu sagt þér það og boðað það? Þér eruð vottar mínir: Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, ég veit af engu öðru.
21 Minnstu þess, Jakob, og þú Ísrael, því að þú ert þjónn minn. Ég hefi skapað þig til að vera þjón minn, þú, Ísrael, munt mér aldrei úr minni líða!
22 Ég hefi feykt burt misgjörðum þínum eins og þoku og syndum þínum eins og skýi. Hverf aftur til mín, því að ég frelsa þig.
23 Fagnið, þér himnar, því að Drottinn hefir því til vegar komið, látið gleðilátum, þér undirdjúp jarðarinnar. Hefjið fagnaðarsöng, þér fjöll, skógurinn og öll tré, sem í honum eru, því að Drottinn frelsar Jakob og sýnir vegsemd sína á Ísrael.
4 Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið.
2 Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika.
3 Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.
4 Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar.
5 Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn,
6 einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.
7 Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum.
8 Því segir ritningin: "Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir." (
9 En "steig upp", hvað merkir það annað en að hann hefur einnig stigið niður í djúp jarðarinnar?
10 Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fylla allt.)
11 Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar.
12 Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar,
13 þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.
14 Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.
15 Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, _ Kristur.
16 Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.
7 Jesús fór með lærisveinum sínum út að vatninu, og fylgdi mikill fjöldi úr Galíleu og úr Júdeu,
8 frá Jerúsalem, Ídúmeu, landinu handan Jórdanar, og úr byggðum Týrusar og Sídonar kom til hans fjöldi manna, er heyrt höfðu, hve mikið hann gjörði.
9 Og hann bauð lærisveinum sínum að hafa til bát fyrir sig, svo að mannfjöldinn þrengdi eigi að honum.
10 En marga hafði hann læknað, og því þustu að honum allir þeir, sem einhver mein höfðu, til að snerta hann.
11 Og hvenær sem óhreinir andar sáu hann, féllu þeir fram fyrir honum og æptu upp: "Þú ert sonur Guðs."
12 En hann lagði ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan.
13 Síðan fór hann til fjalls og kallaði til sín þá er hann sjálfur vildi, og þeir komu til hans.
14 Hann skipaði tólf, er skyldu vera með honum og hann gæti sent út að prédika,
15 með valdi að reka út illa anda.
16 Hann skipaði þá tólf: Símon, er hann gaf nafnið Pétur,
17 Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, en þeim gaf hann nafnið Boanerges, sem þýðir þrumusynir,
18 og Andrés, Filippus og Bartólómeus, Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson, Taddeus og Símon vandlætara
19 og Júdas Ískaríot, þann er sveik hann.
by Icelandic Bible Society