Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 20-21

20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.

Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.

Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]

Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.

Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.

Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.

Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.

Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.

10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.

21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!

Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]

Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.

Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.

Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.

Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.

Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.

Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.

10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.

11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,

12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.

13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.

14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!

Sálmarnir 110

110 Davíðssálmur. Svo segir Drottinn við herra minn: "Sest þú mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem fótskör að fótum þér."

Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!

Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.

Drottinn hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: "Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks."

Drottinn er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.

Hann heldur dóm meðal þjóðanna, fyllir allt líkum, hann knosar höfuð um víðan vang.

Á leiðinni drekkur hann úr læknum, þess vegna ber hann höfuðið hátt.

Sálmarnir 116-117

116 Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína.

Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.

Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi.

Þá ákallaði ég nafn Drottins: "Ó, Drottinn, bjarga sál minni!"

Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur.

Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér.

Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín.

Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun.

Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.

10 Ég trúði, þó ég segði: "Ég er mjög beygður."

11 Ég sagði í angist minni: "Allir menn ljúga."

12 Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?

13 Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.

14 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans.

15 Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.

16 Æ, Drottinn, víst er ég þjónn þinn, ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar, þú leystir fjötra mína.

17 Þér færi ég þakkarfórn og ákalla nafn Drottins.

18 Ég greiði Drottni heit mín, og það í augsýn alls lýðs hans,

19 í forgörðum húss Drottins, í þér, Jerúsalem. Halelúja.

117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,

því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.

Jesaja 43:1-13

43 En nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.

Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig. Gangir þú gegnum eld, skalt þú eigi brenna þig, og loginn skal eigi granda þér.

Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, Hinn heilagi í Ísrael frelsari þinn. Ég gef Egyptaland í lausnargjald fyrir þig, læt Bláland og Seba í stað þín.

Sökum þess að þú ert dýrmætur í mínum augum og mikils metinn, og af því að ég elska þig, þá legg ég menn í sölurnar fyrir þig og þjóðir fyrir líf þitt.

Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Ég kem með niðja þína úr austri og safna þér saman úr vestri.

Ég segi við norðrið: "Lát fram!" og við suðrið: "Haltu þeim eigi! Flyt þú sonu mína úr fjarlægð og dætur mínar frá endimörkum jarðarinnar:

sérhvern þann, sem við nafn mitt er kenndur og ég hefi skapað mér til dýrðar, sérhvern þann, er ég hefi myndað og gjört!"

Lát nú koma fram lýð þann, sem blindur er, þótt hann hafi augu, og þá menn, sem daufir eru, þótt þeir hafi eyru.

Lát alla heiðingjana safnast í einn hóp og þjóðirnar koma saman. Hver af þeim getur kunngjört slíkt og látið oss heyra það, er áður er fram komið? Leiði þeir fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn segi, er þeir heyra það: "Það er satt!"

10 En þér eruð mínir vottar, segir Drottinn, og minn þjónn, sem ég hefi útvalið, til þess að þér skylduð kannast við og trúa mér og skilja, að það er ég einn. Á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til.

11 Ég, ég er Drottinn, og enginn frelsari er til nema ég.

12 Það var ég, sem boðaði og hjálpaði og kunngjörði, en enginn annar yðar á meðal, og þér eruð vottar mínir _ segir Drottinn. Ég er Guð.

13 Já, enn í dag er ég hinn sami. Enginn getur frelsað af minni hendi. Hver vill gjöra það ógjört, sem ég framkvæmi?

Bréf Páls til Efesusmanna 3:14-21

14 Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum,

15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu.

16 Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður,

17 til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika.

18 Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann,

19 sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.

20 En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum,

21 honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.

Markúsarguðspjall 2:23-3:6

23 Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni.

24 Farísearnir sögðu þá við hann: "Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?"

25 Hann svaraði þeim: "Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans?

26 Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."

27 Og hann sagði við þá: "Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.

28 Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins."

Öðru sinni gekk hann í samkunduhús. Þar var maður með visna hönd,

og höfðu þeir nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði hann á hvíldardegi. Þeir hugðust kæra hann.

Og Jesús segir við manninn með visnu höndina: "Statt upp og kom hér fram!"

Síðan spyr hann þá: "Hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða deyða?" En þeir þögðu.

Og hann leit í kring á þá með reiði, sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra, og sagði við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann rétti fram höndina, og hún varð heil.

Þá gengu farísearnir út og tóku þegar með Heródesarsinnum saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society