Book of Common Prayer
66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,
2 syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.
3 Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.
4 Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]
5 Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.
6 Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.
7 Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]
8 Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.
9 Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.
10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.
11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.
12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.
13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,
14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.
15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]
16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.
17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.
18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.
19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.
20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.
67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.
2 Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]
3 svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.
4 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
5 Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]
6 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
7 Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.
8 Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.
4 Þá sagði hann við mig: "Þú mannsson, far nú til Ísraelsmanna og tala mínum orðum til þeirra.
5 Því að þú ert ekki sendur til fólks, er mæli á torskilda tungu,
6 eigi til margra þjóða, er þú skilur eigi, heldur hefi ég sent þig til Ísraelsmanna. Þeir geta skilið þig.
7 En Ísraelsmenn munu eigi vilja hlýða á þig, því að þeir vilja eigi hlýða á mig, því að allir Ísraelsmenn hafa hörð enni og þverúðarfull hjörtu.
8 Sjá, ég gjöri andlit þitt hart, eins og andlit þeirra, og enni þitt hart, eins og enni þeirra,
9 ég gjöri enni þitt sem demant, harðara en klett. Þú skalt eigi óttast þá, né skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð."
10 Og hann sagði við mig: "Þú mannsson, hugfest þér öll orð mín, þau er ég til þín tala, og lát þau þér í eyrum loða.
11 Far síðan til hinna herleiddu, til samlanda þinna, og tala til þeirra og seg við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!` hvort sem þeir svo hlýða á það eða gefa því engan gaum."
34 Þá tók Pétur til máls og sagði: "Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit.
35 Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.
36 Orðið, sem hann sendi börnum Ísraels, þá er hann flutti fagnaðarboðin um frið fyrir Jesú Krist, sem er Drottinn allra, þekkið þér.
37 Þér vitið, hvað gjörst hefur um alla Júdeu, en hófst í Galíleu eftir skírnina, sem Jóhannes prédikaði.
38 Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gjörði gott og græddi alla, sem af djöflinum voru undirokaðir, því Guð var með honum.
39 Vér erum vottar alls þess, er hann gjörði, bæði í landi Gyðinga og í Jerúsalem. Og hann hengdu þeir upp á tré og tóku af lífi.
40 En Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast,
41 ekki öllum lýðnum, heldur þeim vottum, sem Guð hafði áður kjörið, oss, sem átum og drukkum með honum, eftir að hann var risinn upp frá dauðum.
42 Og hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað.
43 Honum bera allir spámennirnir vitni, að sérhver, sem á hann trúir, fái fyrir hans nafn fyrirgefningu syndanna."
44 Meðan Pétur var enn að mæla þessi orð, kom heilagur andi yfir alla þá, er orðið heyrðu.
118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
3 Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
4 Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
7 Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
8 Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,
9 betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.
10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.
15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.
19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.
21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.
24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.
25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!
26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.
27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.
28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.
29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
15 Jesús segir við hana: "Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?" Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: "Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann."
16 Jesús segir við hana: "María!" Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: "Rabbúní!" (Rabbúní þýðir meistari.)
17 Jesús segir við hana: "Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar."`
18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: "Ég hef séð Drottin." Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.
19 Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: "Friður sé með yður!"
20 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin.
21 Þá sagði Jesús aftur við þá: "Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður."
22 Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: "Meðtakið heilagan anda.
by Icelandic Bible Society