Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:1-24

119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.

Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta

og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.

Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.

Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.

Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.

Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.

Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.

10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.

11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.

12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.

13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.

14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.

15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.

16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.

17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.

18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.

19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.

20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.

21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.

22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.

23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.

24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.

Sálmarnir 12-14

12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.

Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.

Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,

þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"

"Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."

Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.

Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.

Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.

13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?

Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?

Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,

að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.

Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.

14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.

Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.

Jesaja 41:1-16

41 Verið hljóð og hlustið á mig, þér eylönd. Safni þjóðirnar nýjum kröftum, gangi svo nær og tali máli sínu. Vér skulum eigast lög við.

Hver hefir vakið upp manninn í austrinu, sem réttlætið kveður til fylgdar? Hver leggur þjóðir undir vald hans og lætur hann drottna yfir konungum? Hver gjörir sverð þeirra að moldarryki og boga þeirra sem fjúkandi hálmleggi,

svo að hann veitir þeim eftirför og fer ósakaður þann veg, er hann aldrei hefir stigið á fæti sínum?

Hver hefir gjört það og framkvæmt? _ Hann sem kallaði fram kynþáttu mannanna í öndverðu, ég, Drottinn, sem er hinn fyrsti, og með hinum síðustu enn hinn sami.

Eylöndin sáu það og urðu hrædd, endimörk jarðarinnar skulfu. Þeir þyrptust saman og komu.

Hver hjálpar öðrum og segir við félaga sinn: "Vertu hughraustur!"

Trésmiðurinn hughreystir gullsmiðinn, koparsmiðurinn járnsmiðinn og segir: "Kveikingin er góð!" Síðan festir hann goðalíkneskið með nöglum, til þess að það haggist ekki.

En þú Ísrael, þjónn minn, Jakob, sem ég hefi útvalið, þú afsprengi Abrahams ástvinar míns.

Þú, sem ég þreif frá endimörkum jarðarinnar og kallaði þig frá ystu landsálfum hennar og sagði við þig: "Þú ert þjónn minn, ég hefi útvalið þig og eigi hafnað þér!"

10 Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.

11 Sjá, allir fjandmenn þínir skulu verða til skammar og háðungar. Sökudólgar þínir skulu verða að engu og tortímast.

12 Þó að þú leitir að þrætudólgum þínum, skalt þú ekki finna þá. Þeir sem á þig herja, skulu hverfa og að engu verða.

13 Því að ég, Drottinn, Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: "Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!"

14 Óttast þú eigi, maðkurinn þinn Jakob, þú fámenni hópur Ísrael! Ég hjálpa þér, segir Drottinn, og frelsari þinn er Hinn heilagi í Ísrael.

15 Sjá, ég gjöri þig að nýhvesstum þreskisleða, sem alsettur er göddum. Þú skalt þreskja sundur fjöllin og mylja þau í smátt og gjöra hálsana sem sáðir.

16 Þú skalt sáldra þeim, og vindurinn mun feykja þeim og stormbylurinn tvístra þeim. En sjálfur skalt þú fagna yfir Drottni og miklast af Hinum heilaga í Ísrael.

Bréf Páls til Efesusmanna 2:1-10

Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda,

sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.

Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.

En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss,

hefur hann endurlífgað oss með Kristi, þegar vér vorum dauðir vegna misgjörða vorra. Af náð eruð þér hólpnir orðnir.

Guð hefur uppvakið oss í Kristi Jesú og búið oss stað í himinhæðum með honum.

Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú.

Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf.

Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.

10 Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau.

Markúsarguðspjall 1:29-45

29 Úr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes.

30 Tengdamóðir Símonar lá með sótthita, og sögðu þeir Jesú þegar frá henni.

31 Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni, og hún gekk þeim fyrir beina.

32 Þegar kvöld var komið og sólin setst, færðu menn til hans alla þá, er sjúkir voru og haldnir illum öndum,

33 og allur bærinn var saman kominn við dyrnar.

34 Hann læknaði marga, er þjáðust af ýmsum sjúkdómum, og rak út marga illa anda, en illu öndunum bannaði hann að tala, því að þeir vissu hver hann var.

35 Og árla, löngu fyrir dögun, fór hann á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.

36 Þeir Símon leituðu hann uppi,

37 og þegar þeir fundu hann, sögðu þeir við hann: "Allir eru að leita að þér."

38 Hann sagði við þá: "Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn."

39 Og hann fór og prédikaði í samkundum þeirra í allri Galíleu og rak út illa anda.

40 Maður nokkur líkþrár kom til hans, féll á kné og bað hann: "Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."

41 Og hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!"

42 Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin, og hann varð hreinn.

43 Og Jesús lét hann fara, lagði ríkt á við hann

44 og sagði: "Gæt þess að segja engum neitt, en far þú, sýn þig prestinum og fórna fyrir hreinsun þína því, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar."

45 En maðurinn gekk burt og ræddi margt um þetta og víðfrægði mjög, svo að Jesús gat ekki framar komið opinberlega í neina borg, heldur hafðist við úti á óbyggðum stöðum. En menn komu til hans hvaðanæva.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society