Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 1-4

Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,

heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.

Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.

Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.

Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.

Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?

Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:

"Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."

Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.

Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:

"Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."

Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.

Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.

Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."

10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.

11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.

12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,

13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.

Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.

Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.

Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]

En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.

Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]

Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.

Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.

Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.

Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]

Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.

Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.

Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]

Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.

Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]

Færið réttar fórnir og treystið Drottni.

Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.

Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.

Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.

Sálmarnir 7

Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.

Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,

svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.

Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,

hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,

þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]

Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.

Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.

Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.

10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!

11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.

12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.

13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,

14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.

15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.

16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.

17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.

18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.

Jesaja 40:12-23

12 Hver hefir mælt vötnin í lófa sínum og stikað himininn með spönn sinni, innilukt duft jarðarinnar í mælikeri og vegið fjöllin á reislu og hálsana á metaskálum?

13 Hver hefir leiðbeint anda Drottins, hver hefir verið ráðgjafi hans og frætt hann?

14 Hvern hefir hann sótt að ráðum, þann er gæfi honum skilning og kenndi honum leið réttvísinnar, uppfræddi hann í þekkingu og vísaði honum veg viskunnar?

15 Sjá, þjóðirnar eru sem dropi í vatnskjólu og metnar sem ryk á vogarskálum. Sjá, eylöndunum lyftir hann upp eins og duftkorni.

16 Og Líbanon-skógur hrekkur ekki til eldsneytis og dýrin í honum ekki til brennifórnar.

17 Allar þjóðir eru sem ekkert fyrir honum, þær eru minna en ekki neitt og hégómi í hans augum.

18 Við hvern viljið þér þá samlíkja Guði, og hvað viljið þér taka til jafns við hann?

19 Líkneskið steypir smiðurinn, og gullsmiðurinn býr það slegnu gulli og setur á silfurfestar,

20 en sá, sem eigi á fyrir slíkri fórnargjöf, velur sér þann við, er ekki fúni, og leitar að góðum smið, er reist geti svo líkneski, að ekki haggist!

21 Vitið þér ekkert? Heyrið þér ekki? Hefir yður eigi verið kunngjört það frá upphafi? Hafið þér engan skilning hlotið frá grundvöllun jarðar?

22 Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í.

23 Það er hann, sem lætur höfðingjana verða að engu og gjörir drottna jarðarinnar að hégóma.

Bréf Páls til Efesusmanna 1:1-14

Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú, heilsar hinum heilögu, sem eru í Efesus, þeim sem trúa á Krist Jesú.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem í Kristi hefur blessað oss með hvers konar andlegri blessun í himinhæðum.

Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum

ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun

til vegsemdar dýrð hans og náð, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni.

Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra.

Svo auðug er náð hans, sem hann gaf oss ríkulega með hvers konar vísdómi og skilningi.

Og hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun,

10 sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.

11 Í honum höfum vér þá líka öðlast arfleifðina, eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns,

12 til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists, skyldum vera dýrð hans til vegsemdar.

13 Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilags anda, sem yður var fyrirheitið.

14 Hann er pantur arfleifðar vorrar, að vér verðum endurleystir Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar.

Markúsarguðspjall 1:1-13

Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son.

Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn.

Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,

og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.

En Jóhannes var í klæðum úr úlfaldahári, með leðurbelti um lendar sér og át engisprettur og villihunang.

Hann prédikaði svo: "Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans.

Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum anda."

Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og var skírður af Jóhannesi í Jórdan.

10 Um leið og hann sté upp úr vatninu, sá hann himnana ljúkast upp og andann stíga niður yfir sig eins og dúfu.

11 Og rödd kom af himnum: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."

12 Þá knúði andinn hann út í óbyggðina,

13 og hann var í óbyggðinni fjörutíu daga, og Satan freistaði hans. Hann hafðist við meðal villidýra, og englar þjónuðu honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society