Book of Common Prayer
148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.
2 Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.
3 Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.
4 Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.
5 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.
6 Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.
7 Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,
8 eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,
9 fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,
10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,
11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,
12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!
13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.
14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.
150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!
2 Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!
3 Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!
4 Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
5 Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!
91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,
2 sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"
3 Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,
4 hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.
5 Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,
6 drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.
7 Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.
8 Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.
9 Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.
10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.
11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.
13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.
14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.
15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.
16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."
92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
2 að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur
3 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.
4 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.
5 Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.
6 Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.
7 Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,
8 en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.
9 Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.
10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.
11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.
12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.
14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.
15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.
13 Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn svo: Sjá, þjónar mínir munu eta, en yður mun hungra, sjá, þjónar mínir munu drekka, en yður mun þyrsta, sjá, þjónar mínir munu gleðjast, en þér munuð glúpna,
14 sjá, þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði, en þér munuð kveina af hjartasorg og æpa af hugarkvöl.
15 Og þér munuð leifa mínum útvöldu nafn yðar sem formæling, en hinn alvaldi Drottinn mun deyða yður. En sína þjóna mun hann nefna öðru nafni.
16 Hver sá er óskar sér blessunar í landinu, hann óski sér blessunar í nafni hins trúfasta Guðs, og hver sem eið vinnur í landinu, hann vinni eið við hinn trúfasta Guð, af því að hinar fyrri þrautir eru þá gleymdar og af því að þær eru huldar fyrir augum mínum.
7 Og engli safnaðarins í Fíladelfíu skalt þú rita: Þetta segir sá heilagi, sá sanni, sem hefur lykil Davíðs, hann sem lýkur upp, svo að enginn læsir, og læsir, svo að enginn lýkur upp.
8 Ég þekki verkin þín. Sjá, ég hef látið dyr standa opnar fyrir þér, sem enginn getur lokað. Þú hefur lítinn mátt, en hefur varðveitt orð mitt og ekki afneitað nafni mínu.
9 Ég skal láta nokkra af samkundu Satans, er segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur ljúga, _ ég skal láta þá koma og kasta sér fyrir fætur þér og láta þá vita, að ég elska þig.
10 Af því að þú hefur varðveitt orðið um þolgæði mitt mun ég og varðveita þig frá reynslustundinni, sem koma mun yfir alla heimsbyggðina, til að reyna þá sem á jörðunni búa.
11 Ég kem skjótt. Haltu fast því, sem þú hefur, til þess að enginn taki kórónu þína.
12 Þann er sigrar mun ég gjöra að stólpa í musteri Guðs míns, og hann skal aldrei þaðan út fara. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja.
13 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
15 Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.
16 Þegar kvöld var komið, fóru lærisveinar hans niður að vatninu,
17 stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaum. Myrkur var skollið á, og Jesús var ekki enn kominn til þeirra.
18 Vind gerði hvassan, og tók vatnið að æsast.
19 Þegar þeir höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm, sáu þeir Jesú gangandi á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir,
20 en hann sagði við þá: "Það er ég, óttist eigi."
21 Þeir vildu þá taka hann í bátinn, en í sömu svifum rann báturinn að landi, þar sem þeir ætluðu að lenda.
22 Daginn eftir sá fólkið, sem eftir var handan vatnsins, að þar hafði ekki verið nema einn bátur og að Jesús hafði ekki stigið í bátinn með lærisveinum sínum, heldur höfðu þeir farið burt einir saman.
23 Aðrir bátar komu frá Tíberías í nánd við staðinn, þar sem þeir höfðu etið brauðið, þegar Drottinn gjörði þakkir.
24 Nú sáu menn, að Jesús var ekki þarna fremur en lærisveinar hans. Þeir stigu því í bátana og komu til Kapernaum í leit að Jesú.
25 Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: "Rabbí, nær komstu hingað?"
26 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.
27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."
by Icelandic Bible Society