Book of Common Prayer
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
7 Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?
8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,
10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"
12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.
20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.
21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?
22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.
23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
65 Ég var fús að veita þeim áheyrn, sem eigi spurðu eftir mér, ég gaf þeim kost á að finna mig, sem eigi leituðu mín. Ég sagði: "Hér er ég, hér er ég," við þá þjóð, er eigi ákallaði nafn mitt.
2 Ég hefi rétt út hendur mínar allan daginn í móti þrjóskum lýð, í móti þeim, sem ganga á illum vegum, eftir eigin hugþótta sínum,
3 í móti fólki, sem reitir mig stöðuglega til reiði upp í opin augun, sem fórnar í lundunum og brennir reykelsi á tigulsteinunum,
4 sem lætur fyrirberast í gröfunum og er um nætur í hellunum, etur svínakjöt og hefir viðbjóðslega súpu í ílátum sínum,
5 sem segir: "Far þú burt, kom ekki nærri mér, ég er þér heilagur!" _ Slíkir menn eru reykur í nösum mér, eldur, sem brennur liðlangan daginn.
6 Sjá, það stendur skrifað frammi fyrir mér: Ég mun ekki þagna fyrr en ég hefi goldið, já, ég mun gjalda þeim í skaut,
7 bæði fyrir misgjörðir þeirra og fyrir misgjörðir feðra þeirra _ segir Drottinn. Þeir brenndu reykelsi á fjöllunum og smánuðu mig á hæðunum! Ég vil mæla þeim í skaut laun þeirra.
8 Svo segir Drottinn: Eins og menn segja, þegar lögur finnst í vínberi: "Ónýt það eigi, því að blessun er í því!" eins vil ég gjöra fyrir sakir þjóna minna, svo að ég tortími þeim ekki öllum.
9 Ég vil láta afsprengi æxlast út af Jakob og út af Júda erfingja að fjöllum mínum. Mínir útvöldu skulu erfa þau og þjónar mínir búa þar.
3 Og engli safnaðarins í Sardes skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur þá sjö anda Guðs og stjörnurnar sjö. Ég þekki verkin þín, að þú lifir að nafninu, en ert dauður.
2 Vakna þú og styrk það sem eftir er og að dauða komið. Því margt hef ég fundið í fari þínu, sem ekki stenst fyrir Guði mínum.
3 Minnst þú því, hvernig þú tókst á móti og heyrðir, og varðveit það og gjör iðrun. Ef þú vakir ekki, mun ég koma eins og þjófur, og þú munt alls ekki vita, á hverri stundu ég kem yfir þig.
4 En þú átt fáein nöfn í Sardes, sem ekki hafa saurgað klæði sín, og þeir munu ganga með mér í hvítum klæðum, því að þeir eru maklegir.
5 Sá er sigrar, hann skal þá skrýðast hvítum klæðum, og eigi mun ég afmá nafn hans úr bók lífsins. Ég mun kannast við nafn hans fyrir föður mínum og fyrir englum hans.
6 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
6 Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn.
2 Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki.
3 Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum.
4 Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.
5 Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: "Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?"
6 En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra.
7 Filippus svaraði honum: "Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt."
8 Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:
9 "Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?"
10 Jesús sagði: "Látið fólkið setjast niður." Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu.
11 Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.
12 Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: "Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist."
13 Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu.
14 Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: "Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn."
by Icelandic Bible Society