Book of Common Prayer
121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?
2 Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.
3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.
4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.
5 Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.
6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.
7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.
8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.
122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."
2 Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.
3 Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,
4 þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,
5 því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.
6 Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.
7 Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.
8 Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.
9 Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.
123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.
2 Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.
3 Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.
4 Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.
131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.
2 Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.
3 Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
63 Hver er þessi, sem kemur frá Edóm, í hárauðum klæðum frá Bosra? Þessi hinn tigulega búni, sem gengur fram hnarreistur í mikilleik máttar síns? _ Það er ég, sá er mæli réttlæti og mátt hefi til að frelsa.
2 Hví er rauð skikkja þín, og klæði þín eins og þess, er treður ber í vínþröng?
3 _ Vínlagarþró hefi ég troðið, aleinn, af þjóðunum hjálpaði mér enginn. Ég fótum tróð þá í reiði minni, marði þá sundur í heift minni. Þá hraut lögur þeirra á klæði mín, og skikkju mína ataði ég alla.
4 Hefndardagur var mér í hug, og lausnarár mitt er komið.
5 Ég litaðist um, en enginn var til að hjálpa, mig undraði, að enginn skyldi aðstoða mig. En þá hjálpaði mér armleggur minn, og heift mín aðstoðaði mig.
18 Og engli safnaðarins í Þýatíru skalt þú rita: Þetta segir sonur Guðs, sem augun hefur eins og eldsloga og fætur hans eru líkir glómálmi:
19 Ég þekki verkin þín og kærleikann, trúna, þjónustuna og þolgæði þitt og veit, að verk þín hin síðari eru meiri en hin fyrri.
20 En það hef ég á móti þér, að þú líður Jessabel, konuna, sem segir sjálfa sig vera spákonu og kennir þjónum mínum og afvegaleiðir þá til að drýgja hór og eta kjöt helgað skurðgoðum.
21 Ég hef gefið henni frest til þess að hún gjöri iðrun, en hún vill ekki gjöra iðrun og láta af hórdómi sínum.
22 Nú mun ég varpa henni á sjúkrabeð og þeim í mikla þrengingu, sem hórast með henni, ef þeir gjöra ekki iðrun og láta af verkum hennar.
23 Og börn hennar mun ég deyða og allir söfnuðirnir skulu vita, að ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun, og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar.
24 En yður segi ég, hinum sem eruð í Þýatíru, öllum þeim sem hafa ekki kenningu þessa, þar sem þeir hafa ekki kannað djúp Satans, sem þeir svo kalla: Aðra byrði legg ég eigi á yður,
25 nema það að þér haldið því, sem þér hafið, þangað til ég kem.
26 Þeim er sigrar og varðveitir allt til enda verk mín mun ég gefa vald yfir heiðingjunum.
27 Og hann mun stjórna þeim með járnsprota, eins og leirker eru moluð. Það vald hef ég fengið frá föður mínum.
28 Og ég mun gefa honum morgunstjörnuna.
29 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
5 Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem.
2 Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng.
3 Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins.
4 En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.]
5 Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár.
6 Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: "Viltu verða heill?"
7 Hinn sjúki svaraði honum: "Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér."
8 Jesús segir við hann: "Statt upp, tak rekkju þína og gakk!"
9 Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur,
10 og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: "Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna."
11 Hann svaraði þeim: "Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!"`
12 Þeir spurðu hann: "Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk`?"
13 En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum.
14 Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: "Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra."
15 Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann.
by Icelandic Bible Society