Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 117-118

117 Lofið Drottin, allar þjóðir, vegsamið hann, allir lýðir,

því að miskunn hans er voldug yfir oss, og trúfesti Drottins varir að eilífu. Halelúja.

118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"

Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.

Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.

Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,

betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.

10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.

13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.

14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.

15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,

16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.

17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.

18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.

19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.

20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.

21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.

22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.

23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.

24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.

25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!

26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.

27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.

28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.

29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Sálmarnir 112-113

112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.

Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.

Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.

Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,

því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.

Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.

Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.

Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.

10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.

113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.

Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.

Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.

Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.

Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt

og horfir djúpt á himni og á jörðu.

Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum

og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.

Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.

Jesaja 59:15-21

15 Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi. Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið.

16 Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann.

17 Hann íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju.

18 Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann.

19 Menn munu óttast nafn Drottins í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur Drottins knýr áfram.

20 En til Síonar kemur hann sem frelsari, til þeirra í Jakob, sem snúið hafa sér frá syndum _ segir Drottinn.

21 Þessi er sáttmálinn, sem ég gjöri við þá _ segir Drottinn: Andi minn, sem er yfir þér, og orð mín, sem ég hefi lagt í munn þér, þau skulu ekki víkja frá munni þínum, né frá munni niðja þinna, né frá munni niðja niðja þinna, _ segir Drottinn, _ héðan í frá og að eilífu.

Opinberun Jóhannesar 2:8-17

Og engli safnaðarins í Smýrnu skalt þú rita: Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi:

Ég þekki þrengingu þína og fátækt _ en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim, sem segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur samkunda Satans.

10 Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.

11 Hver sem eyra hefur, hann heyri, hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.

12 Og engli safnaðarins í Pergamos skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og bitra:

13 Ég veit hvar þú býrð, þar sem hásæti Satans er. Þú heldur stöðugt við nafn mitt og afneitar ekki trúnni á mig, jafnvel ekki á dögum Antípasar, míns trúa vottar, sem deyddur var hjá yður, þar sem Satan býr.

14 En þó hef ég nokkuð á móti þér. Þú hefur hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Bíleams, þess er kenndi Balak að tæla Ísraelsmenn, svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór.

15 Þannig hefur þú líka hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Nikólaíta.

16 Gjör því iðrun! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns.

17 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda "manna", og ég mun gefa honum hvítan stein, og á steininn ritað nýtt nafn, sem enginn þekkir nema sá, er við tekur.

Jóhannesarguðspjall 4:46-54

46 Nú kom hann aftur til Kana í Galíleu, þar sem hann hafði gjört vatn að víni. Í Kapernaum var konungsmaður nokkur, sem átti sjúkan son.

47 Þegar hann frétti, að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu, fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona.

48 Þá sagði Jesús við hann: "Þér trúið ekki, nema þér sjáið tákn og stórmerki."

49 Konungsmaður bað hann: "Herra, kom þú áður en barnið mitt andast."

50 Jesús svaraði: "Far þú, sonur þinn lifir." Maðurinn trúði því orði, sem Jesús mælti til hans, og fór af stað.

51 En meðan hann var á leiðinni ofan eftir, mættu honum þjónar hans og sögðu, að sonur hans væri á lífi.

52 Hann spurði þá, hvenær honum hefði farið að létta, og þeir svöruðu: "Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum."

53 Þá sá faðirinn, að það var á þeirri stundu, þegar Jesús hafði sagt við hann: "Sonur þinn lifir." Og hann tók trú og allt hans heimafólk.

54 Þetta var annað táknið, sem Jesús gjörði, þegar hann kom frá Júdeu til Galíleu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society