Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 103

103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,

lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,

leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.

Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.

Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.

Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.

10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,

11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.

15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,

16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.

17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,

18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.

19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.

20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.

21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.

22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.

Sálmarnir 114-115

114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,

varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.

Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.

Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.

Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,

þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?

Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,

hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.

115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.

Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"

En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.

Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.

Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.

Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.

Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.

En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,

13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.

14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.

15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.

16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.

17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,

18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.

Jesaja 52:3-6

Svo segir Drottinn: Þér voruð seldir fyrir ekkert, þér skuluð og án silfurs leystir verða.

Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Til Egyptalands fór lýður minn forðum til þess að dveljast þar um hríð, og Assýringar kúguðu hann heimildarlaust.

Og nú, hvað hefi ég hér að gjöra _ segir Drottinn _ þar sem lýður minn hefir verið burt numinn fyrir ekkert? Yfirdrottnarar hans dramba _ segir Drottinn _ og stöðugt er nafn mitt smáð liðlangan daginn.

Fyrir því skal lýður minn fá að þekkja nafn mitt, fá að reyna það á þeim degi, að það er ég, sem segi: "Sjá, hér er ég!"

Opinberun Jóhannesar 2:1-7

Engli safnaðarins í Efesus skalt þú rita: Þetta segir sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér, sá sem gengur á milli gullstikanna sjö:

Ég þekki verkin þín og erfiðið og þolgæði þitt og veit, að eigi getur þú sætt þig við vonda menn. Þú hefur reynt þá, sem segja sjálfa sig vera postula, en eru það ekki, og þú hefur komist að því, að þeir eru lygarar.

Þú ert þolgóður og byrðar hefur þú borið fyrir sakir nafns míns og ekki þreytst.

En það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika.

Minnst þú því, úr hvaða hæð þú hefur hrapað, og gjör iðrun og breyttu eins og fyrrum. Að öðrum kosti kem ég til þín og færi ljósastiku þína úr stað, ef þú gjörir ekki iðrun.

En það mátt þú eiga, að þú hatar verk Nikólaítanna, sem ég sjálfur hata.

Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar, honum mun ég gefa að eta af lífsins tré, sem er í Paradís Guðs.

Jóhannesarguðspjall 2:1-11

Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar.

Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans.

En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: "Þeir hafa ekki vín."

Jesús svarar: "Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn."

Móðir hans sagði þá við þjónana: "Gjörið það, sem hann kann að segja yður."

Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.

Jesús segir við þá: "Fyllið kerin vatni." Þeir fylltu þau á barma.

Síðan segir hann: "Ausið nú af og færið veislustjóra." Þeir gjörðu svo.

Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann

10 og sagði: "Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú."

11 Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society