Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 85

85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.

Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,

þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]

Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.

Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.

Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?

Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?

Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!

Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.

10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.

11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.

12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.

13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.

14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.

Sálmarnir 87

87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.

Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.

Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]

Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.

En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.

Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]

Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."

Sálmarnir 89:1-29

89 Etans-maskíl Esraíta.

Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu, kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns,

því að ég hefi sagt: Náð þín er traust að eilífu, á himninum grundvallaðir þú trúfesti þína.

Ég hefi gjört sáttmála við minn útvalda, unnið Davíð þjóni mínum svolátandi eið:

"Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]

Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.

Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?

Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.

Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.

10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.

11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.

12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.

13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.

14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.

15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.

16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.

17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,

18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,

19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.

20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.

21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.

22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.

23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,

24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.

25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.

26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.

27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.

28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.

29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.

Önnur bók Móse 3:1-12

En Móse gætti sauða Jetró tengdaföður síns, prests í Midíanslandi. Og hann hélt fénu vestur yfir eyðimörkina og kom til Guðs fjalls, til Hóreb.

Þá birtist honum engill Drottins í eldsloga, sem lagði út af þyrnirunna nokkrum. Og er hann gætti að, sá hann, að þyrnirunninn stóð í ljósum loga, en brann ekki.

Þá sagði Móse: "Ég vil ganga nær og sjá þessa miklu sýn, hvað til þess kemur, að þyrnirunninn brennur ekki."

En er Drottinn sá, að hann vék þangað til að skoða þetta, þá kallaði Guð til hans úr þyrnirunnanum og sagði: "Móse, Móse!" Hann svaraði: "Hér er ég."

Guð sagði: "Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð."

Því næst mælti hann: "Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs." Þá byrgði Móse andlit sitt, því að hann þorði ekki að líta upp á Guð.

Drottinn sagði: "Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á.

Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, á stöðvar Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.

Nú með því að kvein Ísraelsmanna er komið til mín, og ég auk þess hefi séð, hversu harðlega Egyptar þjaka þeim,

10 þá far þú nú. Ég vil senda þig til Faraós, og þú skalt leiða þjóð mína, Ísraelsmenn, út af Egyptalandi."

11 En Móse sagði við Guð: "Hver er ég, að ég fari til fundar við Faraó og að ég leiði Ísraelsmenn út af Egyptalandi?"

12 Þá sagði hann: "Sannlega mun ég vera með þér. Og það skalt þú til marks hafa, að ég hefi sent þig, að þá er þú hefir leitt fólkið út af Egyptalandi, munuð þér þjóna Guði á þessu fjalli."

Bréfið til Hebrea 11:23-31

23 Fyrir trú leyndu foreldrar Móse honum í þrjá mánuði eftir fæðingu hans, af því að þau sáu, að sveinninn var fríður, og þau létu eigi skelfast af skipun konungsins.

24 Fyrir trú hafnaði Móse því, er hann var orðinn fulltíða maður, að vera talinn dóttursonur Faraós,

25 og kaus fremur illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.

26 Hann taldi vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands, því að hann horfði fram til launanna.

27 Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins, en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.

28 Fyrir trú hélt hann páska og lét rjóða blóðinu á húsin, til þess að eyðandi frumburðanna skyldi ekki snerta þá.

29 Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land, og er Egyptar freistuðu þess, drukknuðu þeir.

30 Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar, er menn höfðu gengið í kringum þá í sjö daga.

31 Fyrir trú var það, að skækjan Rahab fórst ekki ásamt hinum óhlýðnu, þar sem hún hafði tekið vinsamlega móti njósnarmönnunum.

Jóhannesarguðspjall 14:6-14

Jesús segir við hann: "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.

Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann."

Filippus segir við hann: "Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss."

Jesús svaraði: "Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: ,Sýn þú oss föðurinn`?

10 Trúir þú ekki, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk.

11 Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér gerið það ekki, trúið þá vegna sjálfra verkanna.

12 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau, því ég fer til föðurins.

13 Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra, svo að faðirinn vegsamist í syninum.

14 Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society