Book of Common Prayer
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.
2 Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.
3 Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.
4 Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.
5 Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.
6 Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,
7 til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
8 Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.
9 Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,
10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.
11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.
12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.
13 Lofsyngið, þér himnar, og fagna þú, jörð! Hefjið gleðisöng, þér fjöll, því að Drottinn veitir huggun sínum lýð og auðsýnir miskunn sínum þjáðu.
14 Síon segir: "Drottinn hefir yfirgefið mig, hinn alvaldi hefir gleymt mér!"
15 Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.
16 Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína, múrar þínir standa jafnan fyrir augum mér.
17 Byggjendur þínir koma með flýti, en þeir, sem brutu þig niður og lögðu þig í rústir, víkja burt frá þér.
18 Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, skalt þú íklæðast þeim öllum sem skarti og belta þig með þeim sem brúður.
19 Því að rústir þínar, eyðistaðir þínir og umturnað land þitt _ já, nú verður þú of þröng fyrir íbúana og eyðendur þínir munu vera langt í burtu.
20 Enn munu börnin frá árunum, er þú varst barnalaus, segja í eyru þér: "Hér er of þröngt um mig. Færðu þig, svo að ég fái bústað!"
21 Þá muntu segja í hjarta þínu: "Hver hefir alið mér þessi börn? Ég var barnlaus og óbyrja, útlæg og brottrekin. Og hver hefir fóstrað þessi börn? Sjá, ég var ein eftir skilin, hvernig stendur þá á börnum þessum?"
22 Svo segir hinn alvaldi Drottinn: Sjá, ég mun banda hendi minni til þjóðanna og reisa upp merki mitt fyrir lýðina, og munu þeir þá færa hingað sonu þína í fangi sér, og dætur þínar bornar verða hingað á öxlinni.
23 Konungar skulu verða barnfóstrar þínir og drottningar þeirra barnfóstrur þínar. Þeir munu falla til jarðar fram á ásjónur sínar fyrir þér og sleikja duft fóta þinna. Þá munt þú komast að raun um, að ég er Drottinn og að þeir verða ekki til skammar, sem á mig vona.
18 Á þeirri stundu komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: "Hver er mestur í himnaríki?"
2 Hann kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra
3 og sagði: "Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.
4 Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.
5 Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.
6 En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.
7 Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur.
8 Ef hönd þín eða fótur tælir þig til falls, þá sníð hann af og kasta frá þér. Betra er þér handarvana eða höltum inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og báða fætur og verða kastað í hinn eilífa eld.
9 Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér eineygðum inn að ganga til lífsins en hafa bæði augu og verða kastað í eldsvítið.
10 Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður, að englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska föður. [
11 Því að Mannssonurinn er kominn að frelsa hið týnda.]
12 Hvað virðist yður? Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess, sem villtur er?
13 Og auðnist honum að finna hann, þá segi ég yður með sanni, að hann fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu, sem villtust ekki frá.
14 Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist.
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.
2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.
4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.
6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
13 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá.
14 Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.
15 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."
16 Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.
by Icelandic Bible Society